Bresku kaupsýslumennirnir Vincent og Robert Tchenguiz undirbúa nú skaðabótamál gegn endurskoðunarfyrirtækinu Grant Thornton þar sem fyrirtækið veitti efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar, SFO, upplýsingar sem notaðar voru gegn þeim þegar SFO rannsakaði þá. Ætla þeir að krefja Grant Thornton um allt að 2,5 milljarða punda, 464 milljarða króna.
Skaðabótakrafa bræðranna fylgir í kjölfar ákvörðunar dómara um að endurskoðunarfyrirtækið eigi að skila þeim gögnum sem það afhenti SFO og lögðu grunninn að rannsókninni á Tchenguiz bræðrum fyrir tveimur árum, samkvæmt frétt Independent.
Ákvörðun dómara getur haft mikil áhrif á málareksturinn þar sem bræðurnir telja að það sem komi fram í skjölunum muni styrka skaðabótakröfu þeirra gegn SFO og Grant Thornton því þar sé sönnun að finna á því að handtaka þeirra hafi verið byggð á sandi.
Tchenguiz bræður hafa í nokkra mánuði reynt að fá skjölin frá Grant Thornton án árangur þar sem lögfræðingar fyrirtækisins hafa neitað því. Hins vegar taldi dómari að nauðsynlegt væri fyrir framgang málsins að þeir fengju að sjá skjölin.
Þeir Vincent Tchenguiz og Robert bróðir hans sættu rannsókn SFO í tengslum við rannsókn á lykilstarfsmönnum Kaupþings.
UGrant Thornton var skiptastjóri Kaupþings í Bretlandi á þessum tíma. Upplýsingarnar sem komu frá endurskoðunarfyrirtækinu túlkaði SFO sem svo að Vincent Tchenguiz hefði ekki gefið upp réttar upplýsingar varðandi 100 milljón punda lán sem hann fékk hjá Kaupþingi. SFO greindi hins vegar ekki frá því, þegar óskað var eftir handtökuskipun hjá dómara, að á sama tíma ætti Grant Thorton í dómsmáli við Vincent Tchenguiz.