Fjöldi hvala sem sjást í skoðunarferðum er kominn niður í um eitt til tvö dýr að meðaltali í hverri ferð. Árið 2008 var fjöldinn um sex til sjö dýr. Þetta segir Hjörtur Hinriksson, framkvæmdastjóri hvalaskoðunarfyrirtækisins Sérferða, í þættinum Viðskipti með Sigurði Má. Hann segir klárt mál að veiðarnar hafi áhrif á skoðunarferðir á Faxaflóasvæðinu.
„Þetta hefur gríðarlega mikil áhrif og þó menn segi að hvalaskoðun hafi vaxið á sama tíma og hvalveiðar hafi verið stundaðar, þá sjá menn það alveg að miðað við þessa þróun þá er verið að eyðileggja hvalaskoðun á Faxaflóa.“
Hjörtur segir að með þessari þróun sé mikil hætta á að þeir hvalir sem nú sjáist verði útrýmt, en sömu hvalirnir koma ár eftir ár á sama svæðið. Hann telur veiðarnar vera mestu ógnina sem hvalaskoðunin standi frammi fyrir, en að einnig sé þetta skaðlegt fyrir ferðaþjónustuna í heild.