Sérstakar Íslandsferðir á Hinsegin daga

Stofnendur og eigendur Pink Iceland, þau Hannes Páll Pálssson, Birna …
Stofnendur og eigendur Pink Iceland, þau Hannes Páll Pálssson, Birna Hrönn Björnsdóttir og Eva María Þórarinsdóttir Lange.

Fyrirtækið Pink Iceland sérhæfir sig í ferðum, viðburðum og brúðkaupum fyrir hinsegin ferðamenn á Íslandi og nú þegar Hinsegin dagar í Reykjavík eru á næsta leiti er allt á fullu hjá fyrirtækinu sem alla jafna sinnir ákveðnum jaðarhóp. Í samtali við mbl.is segir Hannes Páll Pálsson, einn eiganda fyrirtækisins, að þrátt fyrir að gera sig út fyrir að vera ferðaþjónusta hinsegin fólks, þá hafi gagnkynhneigð pör einnig verið mjög spennt fyrir þeirri þjónustu sem er í boði og nú þegar hafi fyrirtækið skipulagt nokkur slík brúðkaup á þessu ári.

„Við fáum um 40 manns til okkar núna yfir Hinsegin daga,“ segir Hannes, en fólkið kemur sérstaklega til landsins vegna hátíðarinnar. Auk venjulegrar dagskrár er þó farið í hvalaskoðun og kíkt á ferðamannastaði fyrir utan borgarmörkin.

Hannes segir að hinsegin fólk eigi sína sameiginlegu menningu og að hátíðir sem þessar búi til visst samfélag sem fólk víðsvegar um heiminum sæki í. Þannig sé ekki síðri þáttur fyrir hinsegin ferðamenn, sem hingað komi, að hittast og kynnast öðru hinsegin fólki í þessum ferðum, enda sé mikið lagt upp úr því í allri umgjörð hjá Pink Iceland.

Fyrirtækið hóf starfsemi sína árið 2011, en Hannes segir að fram að því hafi stofnendurnir haft gífurlega reynslu af því að taka á móti og skipuleggja styttri ferðir og heimsóknir ferðafólks hér á landi. Þannig hafi þetta að mörgu leiti verið rökrétt skref og í ár gera þau ráð fyrir að allt að þúsund manns komi til landsins á þeirra vegum.

Vilja ekki stórar fjöldaferðir

Hann segir að fyrirtækið reyni að hafa alla nálgun persónulegri en þegar um stórar fjöldaferðir er að ræða. Þannig sé ferðast um á smærri bílum og hóparnir hafðir minni. Þetta gerir að hans sögn ferðirnar dýrari, en að sama skapi mjög eftirsóttar.

Aðspurður um hver áform fyrirtækisins næstu ár séu, segir Hannes að stofnendurnir séu mjög meðvitaðir um vaxtarferli lítilla fyrirtækja og að þau telji sig vera á réttum stað miðað við hversu lengi fyrirtækið hafi verið í rekstri. Segir hann að gaman væri ef hægt væri að ná fleira fólki í einu á þær skipulögðu hátíðir sem framundan eru, ekki síst yfir vetrartímann.

Brúðkaupin vinsæl

Áherslan sé þó enn mest á brúðkaupin, sem Hannes segir að séu bæði skemmtilegust og gefi mest af sér. Meðal annars hafi um 100 manns komið til landsins núna í júlí á vegum fyrirtækisins vegna brúðkaupa, en bæði samkynhneigð og gagnkynhneigð pör hafa valið að nýta sér þjónustu fyrirtækisins til að skipuleggja stóra daginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK