Tölvuleikjafyrirtækið Plain Vanilla verður þriggja ára í nóvember. Þorsteinn Baldur Friðriksson, framkvæmdastjóri þess, er gestur í þættinum Viðskipti með Sigurði Má. Þar segir hann sögu félagsins minna á rússíbanaferð. Á stuttum líftíma fyrirtækisins hafi það gefið út einn barnaleik, næstum orðið gjaldþrota, safnað 500 milljóna fjármögnun með ævintýraferð til Bandaríkjanna og eftir tvo mánuði verði gefin út nýjasta afurðin, spurningaleikur sem einnig er samfélagsnet.
Hann furðar sig meðal annars á því að horft sé á mistök sem slæman hlut hér á landi þegar kemur að fjárfestingum. Segir hann að í Bandaríkjunum vilji fjárfestar helst ekki leggja peninga í verkefni nema stjórnendurnir hafi allavega brennt sig tvisvar eða þrisvar áður og horft sé á það sem hluta af þroskaferli frumkvöðla.
Þá segir hann frá því hvernig munurinn er fyrir frumkvöðla að leita fjármagns hér á landi og svo í Bandaríkjunum. Ytra hafi Plain Vanilla lent á vegg þegar Þorsteinn áttaði sig á því að ekki gengi að hringja beint í alla fjárfesta og fá fund með stuttum fyrirvara, eins og algengt er hér á landi. Segir hann að hugsa þurfi fjármögnunarleitina eins og tölvuleik þar sem kynnast þurfi fólki til að ná til næsta aðila og þannig vinna sig koll af kolli upp fæðukeðjuna í bransanum. Þetta sé ekki ólíkt því að vinna sig upp um borð í tölvuleik.