International Airlines Group, móðurfélag British Airways og spænska félagsins Iberia, lagði í vikunni fram pöntun um 220 Airbus A320 flugvélar. Pöntun sem fáir í bransanum áttu von á og er til þess að styrkja stöðu Aribus og tryggja forskot á gríðarlega hörðum markaði þar sem Airbus og Boeing keppa.
Evrópski flugvélaframleiðandinn Airbus hefur heldur betur verið að sækja í sig veðrið að undanförnu. Greint var frá því á mbl.is á dögunum að fyrirtækið hafi afhent átta þúsundustu flugvél til viðskiptavinar. Og að flugvél frá Airbus taki á loft eða lendi á tveggja sekúndna fresti einhvers staðar í heiminum.
Þessi tiltekna pöntun er ekki síst áhugaverð fyrir þær sakir að talið var að IAG myndi velja Boeing. Hugsanlega hafa vandræði bandaríska flugvélaframleiðandans haft eitthvað um það að segja en ljóst er að Airbus, sem er með höfuðstöðvar sínar í Toulouse í Frakklandi, er að stinga af í samkeppninni. Alla vega þegar árið 2013 er skoðað.