Stjórnarformaðurinn í Stjörnugallanum

Í miðju hruninu voru hin sameinuðu félög Danól og Ölgerðin nýlega búin að ákveða að færa allar átta starfstöðvar félagsins undir eitt þak og verið var að byggja nýtt húsnæði fyrirtækisins að Grjóthálsi. Ekki var hætt við framkvæmdir eins og hjá mörgum öðrum fyrirtækjum, enda búið að leggja mikið í breytingarnar og ljóst að mikið hagræði yrði að allir starfsmenn væru á sama stað.

Nýtt húsnæði tekið í notkun 2009

Nýtt og glæsilegt húsnæði var tekið í notkun um mitt ár 2009, en samkvæmt stjórnarformanni félagsins, Októ Einarssyni, þá var ljóst frá fyrsta degi að stækkunin hefði jafnvel mátt vera meiri, en lagerhúsnæði er til dæmis oftast fullnýtt. Mbl.is fékk að kíkja í heimsókn þar sem Októ og Svanhildur Sigurðardóttir, samskipta- og samfélagsstjóri leiddu blaðamann um húsið.

Strax frá upphafi var leitað til danskra arkitekta varðandi stækkunina, en þeir létu þarfagreina fyrirtækið og var húsnæðið allt sett upp í samræmi við útreikninga þeirra. Októ segir að hugmyndir þeirra og skipulag hafi virkað fullkomlega og til dæmis hafi ekki þurft að gera neinar innri breytingar síðan húsið var tekið í notkun.

Enginn með skrifstofur

Meðal þess sem lagt var með var að hafa engar skrifstofur, heldur er unnið í opnum rýmum. Þannig er forstjórinn til dæmis ekki lokaður af, heldur aðeins með skilrúm á milli sín og næsta starfsmanns. Þó er að finna nokkur lokuð vinnurými og fundarherbergi þurfi starfsmenn að sinna ákveðnum verkefnum eða funda.

Starfsmenn tóku rusl með sér heim

Eitt af því sem ölgerðin leggur áherslu á er flokkun rusls og Októ segir að þegar flutt var í nýja húsið hafi verið gerð regla um að engar ruslafötur væru við skrifborð. Þetta hafi fyrst leitt til þess að sumir starfsmenn gengu jafnvel svo langt að taka rusl með sér heim, en fljótlega hafi allir farið að flokka rusl betur.

Kökur á ferð og flugi

Þegar blaðamann bar að garði var föstudagsfundur fyrirtækisins að klárast, en á hverjum föstudagsmorgni hittast starfsmenn og stilla saman strengi sína. Þá er einnig algengt að deildir sjái um kaffi og með því eftir fundinn og mátti sjá marga starfsmenn með tertur á ferð og flugi um gangana.

Utan vinnutíma er einnig töluvert að gerast hjá starfsmönnum, en meðal annars er staðið fyrir heilsuvikum, innanhúskeppnum og hópastarfi. Þá segir Októ að reglulega sé haldið grill á sumrin, en það hafi þó verið frekar sjaldan í sumar vegna veðurs. 

8 milljón lítrar af bjór og malti

Ölgerðin er líklega þekktust fyrir framleiðslu á drykkjarföngum ýmiskonar, en í ölsuðuhúsinu eru framleiddir um 8 milljón lítrar af bjór, hvítöli og malti á ári. Þá sé jafnvel verið að vinna í leiðum til að auka þá framleiðslu enn frekar, að sögn Októs.

Tankarnir í ölsuðuhúsinu eru um 10 þúsund lítrar, en til viðbótar við það er míkróbrugg staðsett í húsinu, en þar fá bruggarar fyrirtækisins frjálsar hendur við að útbúa nýjar og skemmtilegar tegundir sem hafa reglulega komið fyrir sjónir almennings í vínbúðunum. Októ segir að ákveðið hafi verið að hafa þá framleiðslu í minna mæli en sjálfa ölsuðuna, þar sem leiðinlegt væri að hella niður heilum 10 þúsund lítrum ef eitthvað mistækist. Þannig væru tankarnir í míkróbrugginu 800 lítrar, en fljótlega hafi þó orðið ljóst að það væri jafnvel of lítið.

Októberfest bjórinn Teresa

Blaðamaður fékk að líta nýjasta bjórinn augum, en það er októberfest bjórinn Teresa. Er hann nefndur eftir Teresa Saxe-Hildburghausen, en árið 1810 gekk Lúðvík, krónprins af Bæjaralandi, að eiga hana og var þá haldin 40 þúsund manna brúðkaupsveisla sem varð upphafið af októberfest.

Vínskólinn er svo að sjálfsögðu á sínum stað, en þangað hafa um sjö þúsund manns komið frá opnun, eða um 2% þjóðarinnar. Októ segir að viðtökur skólans hafi verið framar björtustu vonum, en upphaflega hafi þau áætlað að ná hugsanlega að hafa námskeið tvö kvöld í viku yfir vetrartímann, en í dag séu þrír starfsmenn sem skipti á milli sín þeim fjölmörgu hópum sem komi.

4000 gámar á ári

Ölgerðin er ekki bara framleiðslufyrirtæki, heldur er það stærsta innflutningsfyrirtæki landsins að sögn Októs. Í vöruhúsi félagsins er pláss fyrir 12500 bretti, en allt að 25 gámar koma á dag inn í húsið og yfir árið meira en 4000 gámar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK