„Liggur beinast við að líta til Íslands“

Það er miklu meiri samsvörun í dreifingu á Íslandi og Grænlandi, en á milli Grænlands og Danmerkur. Þetta segir Gunnar Karl Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Skeljungs og MP banka, en hann settist nýlega í stjórn KNI á Grænlandi, en það er eitt stærsta fyrirtæki landsins. Meðal þeirra verkefna sem KNI sinnir er dreifing á vörum um allt landið, en slíkt getur verið mjög krefjandi vegna stærðar landsins og legu þess.

Í þættinum Viðskipti með Sigurði Má segir Gunnar að á austurströndinni séu til dæmis aðeins fimm til sex þúsund íbúar, en samt þurfi að halda sama þjónustustigi uppi þar og á austurströndinni þar sem rúmlega fimmtíu þúsund manns búa.

Hann segir að á mörgum sviðum séu Grænlendingar langt um fremri Íslendingum og að við getum lært mikið af þeim. Að sama skapi geti Íslendingar komið með margvísilega þekkingu til Grænlands sem hafi byggst upp hér á landi.

Verkefnið er að hans sögn mjög krefjandi, en KNI þarf að passa upp á að öll þjónusta sem boðið sé upp á sé jafn kostnaðarsöm fyrir allar byggðir landsins. Gunnar bendir á að Grænland nái vestur, austur, suður og norður fyrir Ísland og því sé um gríðarlegt landflæmi að ræða. „Það er alveg ljóst að maður þarf að verja þarna töluverðum tíma. Það að kljást við dreifingu til íbúa á Grænlandi, verkefnin verða ekki mikið meira krefjandi,“ segir Gunnar.

Þá segir hann þjóðarframleiðslu Grænlendinga vera svipaða og hér á landi. Hinn gífurlegi flutningskostnaður sé aftur á móti að plaga þjóðina mest og því skipti miklu máli að dreifingin sé gerð á sem hagstæðastan hátt.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK