Regluverk fyrir nýsköpunarfyrirtæki er einfalt hér á landi og ekki til trafala fyrir ný fyrirtæki. Það dugar þó ekki bara að vera með hugmyndir, heldur þarf að selja þær líka. „Eins og með allt annað snýst þetta um að hrista af sér slenið, fara út í heiminn, taka upp tólið og tala við fólk. Þannig verða hugmyndir að veruleika,“ segir Garðar Stefánsson, stofnandi Norður og co ehf., en fyrirtækið framleiðir saltflögur sem áætlað er að fara með á alþjóðamarkað.
Fyrirtækið er staðsett á Reykhólum og stefnir á að vera útflutningsfyrirtæki. Garðar segir þó að byrjað verði með að skoða viðtökur á innlenda markaðinum. Hann segir drauminn að framleiða fleiri vörur með tíð og tíma, en að hugsað verði um tengingu við náttúruna og landsbyggðina í þeim efnum.