Eignarhald Höfðatorgs skýrist á næstu vikum

Búið er að selja turninn við Höfðatorg og skrifstofubyggingu Reykjavíkurborgar. …
Búið er að selja turninn við Höfðatorg og skrifstofubyggingu Reykjavíkurborgar. Framtíðareignarhald yfir öðrum eignum á reitnum kemur í ljós á næstunni. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Fyrir helgi seldu Íslandsbanki og Pétur Guðmundsson, forstjóri Eyktar, Turninn við Katrínartún og Borgartún 8-16, sem nú hýsir skrifstofur Reykjavíkurborgar, til samlagshlutafélagsins FAST-1, sem er stýrt af VÍB. Viðræður eru nú uppi um framtíðareignarhald á reitnum, en gert er ráð fyrir að það verði orðið ljóst á næstu vikum.

Meðal hluthafa FAST-1 eru fjölmargir lífeyrissjóðir og Tryggingamiðstöðin. Fyrr í sumar var svo sagt frá því að á Höfðatorgsreitnum myndi nýtt hótel undir merkjum Fosshótela verða reist, en það verður stærsta hótel landsins. 

Íslandsbanki hefur afskrifað 15 milljarða

Byggingarfélagið Eykt byrjaði Höfðatorgsverkefnið árið 2007, en þá var skipulag svæðisins kynnt. Í hruninu hækkuðu skuldir félagsins mikið og í lok árs 2011 var nauðasamningur við kröfuhafa samþykktur. Með honum eignaðist Íslandsbanki, sem var aðalkröfuhafinn 72,5% í Höfðatorgi, en Eykt 27,5%, meðal annars vegna áfallins byggingarkostnaðar við verkefnið.

Í heild voru um 15 milljarðar afskrifaðir á Höfðatorg í endurskipulagningu félagsins, en í síðasta ársreikningi Íslandsbanka var bókfært virði HTO ehf. metið á 14,967 milljarða. Við það bætast eignirnar í BE eignum og óbyggðar lóðir á Höfðatorgsreitnum. Hafi verðmatið staðist fékk Íslandsbanki um 11,2 milljarða fyrir söluna en Pétur 4,1 milljarð.

Eignum skipt á fjögur félög

Upphaflega voru allar eignirnar í félaginu Höfðatorg ehf., en því var skipt upp fyrir hrun í félögin BE eignir ehf., Höfðatorg ehf., Höfðahótel ehf. og HTO ehf. Í síðastnefnda félaginu voru Turninn og skrifstofur Reykjavíkurborgar og voru þær seldar til FAST-1.

Nú þegar er jarðvegsvina hafin á reitnum sem er í eigu Höfðahótels ehf. Þar mun nýtt Fosshótel verða reist og er áætlað að það verði tekið í notkun árið 2015. 

WOW-húsið verður rifið 

Þriðja félagið sem var stofnað heitir einnig Höfðatorg ehf., en það heldur utan um lóðir og fasteignir á þeim reitum sem ekki hefur enn verið farið í framkvæmdir á. Um er að ræða þrjár ljóðir, en tvær þeirra eru auðar meðan höfuðstöðvar WOW air og Nordic Visitor eru á þeirri þriðju. Munu þær byggingar verða rifnar þegar farið verður í frekari framkvæmdir á reitnum. 

Fjórða félagið er svo BE eignir, en það heldur utan um fasteignir félagsins utan Höfðatorgsreitsins, svo sem Borgartún 1-5 og Þórunnartún 2 (áður Skúlatún 2).

Eignarhaldið skýrist á næstu vikum

Í skriflegu svari frá Íslandsbanka um næstu skref með uppbyggingu á reitnum og hvert eignarhaldið verði fékkst það svar að endanlegt eignarhald liggi ekki fyrir, en að það verði ljóst fljótlega. „Salan á HTO ehf. er hluti af heildarsamningi um uppskiptingu á félaginu. Endanlegt fyrirkomulag þess samnings, og þar með eignarhald bankans í þróunarfélögunum, liggur því ekki fyrir á þessari stundu.  Endanlegt eignarhald skýrist væntanlega á næstu vikum.“

Í dag eru eigendur reitsins FAST-1, Íslandsbanki og Pétur Guðmundsson. …
Í dag eru eigendur reitsins FAST-1, Íslandsbanki og Pétur Guðmundsson. Á næstunni mun endanlegt eignarhald koma í ljós. Mynd/mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK