Evrópusambandið hefur samið við Reykjavik Geothermal um framhald á samstarfi Þróunarsamvinnustofnunar og Evrópusambandsins í Rúanda á sviði jarðhitarannsókna á landamærum Búrúndi, Austur-Kongó og Rúanda. Samningurinn felur í sér að RG tekur að sér grunnrannsóknir á tilteknum svæðum í löndunum þremur og gefi rannsóknir tilefni til tekur fyrirtækið einnig að sér tilraunaboranir. Hlutverk Þróunarsamvinnustofnunar í þessu samstarfi við ESB og EGL (sameiginleg orkustofnun landanna þriggja) felst í stuðningi við eftirlit og vöktun á rannsóknarvinnu. Sérfræðingar ÍSOR munu fyrir hönd ÞSSÍ sinna tæknilegri aðstoð og stuðningi við hlutaðeigendur.
„Það er ánægjulegt að ÞSSÍ geti haldið áfram að veita stuðning við framkvæmd þessa verkefnis. Ég tel einnig að samstarfið sé til fyrirmyndar um árangursríka samræmingu veitenda þróunaraðstoðar um fjármuni vegna nýtingar á jarðvarma,“ segir Engilbert Guðmundsson framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnustofnunar.
„Jarðhiti er nýtt svið sem við höfum takmarkaða reynslu af. Af þeim sökum erum við sérstaklega þakklát fyrir framlag Þróunarsamvinnustofnunar til verkefnisins varðandi tæknilegan stuðning,“ er haft eftir Marc Buchman sviðsstjóri hjá sendinefnd ESB í Rúanda.
Jón Örn Jónsson, verkefnastjóri hjá Reykjavik Geothermal, segir verkefnið mjög spennandi og að markmiðið sé vel skilgreint. Þá muni það skila sér vel inn í íslenska hagkerfið. „Verkefnið er stórt á íslenskan mælikvarða eða að verðmæti tæplega hálfur milljarður íslenskra króna og mun verulegur hluti hennar skila sér í þjóðarbúið,“ segir Jón.