Allt að 180 nýjar smáíbúðir í miðbænum

Hverfisgata 42 er meðal annars við Brynjureitinn, en hann afmarkast …
Hverfisgata 42 er meðal annars við Brynjureitinn, en hann afmarkast af Hverfisgötu, Vatnsstíg, Laugavegi og Klapparstíg. Rósa Braga

Stefnt er að upp­bygg­ingu á 100 til 180 smá­í­búðum í miðbæ Reykja­vík­ur gangi áform bygg­ing­ar­fé­lags­ins Þingvangs eft­ir. Fé­lagið stefn­ir á að reisa 50 til 90 íbúðir á bil­inu 30 til 40 fer­metr­ar á Brynjureitn­um, milli Hverf­is­götu og Lauga­vegs, á næst­unni, en það er háð breyt­ing­um á bygg­ing­ar­reglu­gerð. Þá er einnig mögu­leiki að farið verði í svipaðar fram­kvæmd­ir á Vatns­stígs­reitn­um þegar fram líða stund­ir. Þetta seg­ir Friðjón Friðjóns­son, talsmaður Þingvangs í sam­tali við mbl.is.

Íbúðir fyr­ir ein­stak­linga og pör

Hann seg­ir að hug­mynd­in sé að gera smá­í­búðir sem verði byggðar fyr­ir ein­stak­linga og pör, en ekki sé verið að horfa til fjöl­skyldu­fólks. Áætlað sé að leigu­fé­lag hafi um­sjón með eign­un­um, en áætlaður bygg­ing­ar­tími er um þrjú ár.

Vanda­málið við að byggja litl­ar íbúðir í dag er hár bygg­inga­kostnaður, en hann er oft­ast hærri en sölu­verð. Því hafa verk­tak­ar ekki séð tæki­færi í að fara út í slík­ar fram­kvæmd­ir síðustu ár. Friðjón seg­ir að áform Þingvangs byggi á því að um­hverf­is­ráðherra láti end­ur­skoða bygg­ing­ar­reglu­gerð, en mikið ákall hef­ur verið um slíkt frá verk­tök­um og nú síðast einnig skipu­lags­yf­ir­völd­um.

Reglu­gerðin slæm fyr­ir minni íbúðir

Friðjón bend­ir á að í nýju reglu­gerðinni séu allskon­ar ákvæði sem komi sér illa þegar hug­mynd­in sé að byggja litl­ar íbúðir fyr­ir ein­stak­linga og pör sem vilji búa í litl­um íbúðum og nokkuð þröngt. Meðal ann­ars sé gert ráð fyr­ir að eitt her­bergi sé að minnsta kosti 18 fer­metr­ar, þá er til­greind lág­marks­stærð baðher­berg­is og gerð er krafa um geymslu. Friðjón seg­ir ekki mikið pláss eft­ir þegar gert hafi verið ráð fyr­ir þessu öllu.

Sitja ekki við sama borð og stúd­ent­ar

Íbúðir sem reist­ar eru sem stúd­enta­í­búðir hafa und­anþágu frá reglu­gerðinni og því er mögu­legt að byggja þær minni en íbúðir fyr­ir al­menn­an markað. Friðjón seg­ir það vera furðulega ráðstöf­un. „Af hverju bara stúd­ent­ar, af hverju ekki all­ir?“ spyr hann og seg­ir Þingvang vilja að reglu­gerðin verði að lág­marki víkkuð út fyr­ir ein­stak­linga sem vilji búa þétt. Án þess sé eng­inn grund­völl­ur fyr­ir því að fara í upp­bygg­ingu á smá­í­búðum á svæðinu.

Aðspurður hvað verði byggt á reitn­um ef ekki komi til breyt­ing­ar á reglu­gerð, seg­ir Friðjón að þá verði horft til þess að byggja færri og stærri íbúðir, svo­kallaðar lúxus­í­búðir. Það sé þó ekki fyrsta val Þingvangs.

Fé­lags­miðstöð og tón­leika­sal­ur fyr­ir allt að 800 manns

Á Brynjureitn­um eru einnig uppi áform um að byggja vísi að fé­lags­miðstöð eða skemmti­stað, en Friðjóns seg­ir að for­svars­menn fyr­ir­tæk­is­ins hafi séð þörf­ina fyr­ir slík­an stað eft­ir umræður kring­um lok­un Nasa og Fa­ktorý. Hann seg­ir að í áætl­un sé að gerður verði sal­ur sem hýsi allt að 800 manns, en að hægt væri að nýta hann und­ir allskon­ar fé­lags­starf­semi á dag­inn. Nefn­ir hann í því sam­hengi starf­semi álíka því sem fram fer í Hinu hús­inu. „Við telj­um það skemmti­legra verk­efni en að gera fleiri bíla­stæði í kjall­ara,“ seg­ir hann.

Hann bend­ir á að ekki hafi verið byggður sér­stak­ur tón­leika­sal­ur í Reykja­vík í ár­araðir, ef Harp­an er ekki tal­in með. „Nú höf­um við tæki­færi til þess,“ seg­ir hann um þá miklu end­ur­skipu­lagn­ingu og upp­bygg­ingu sem á sér stað á reit­un­um.

Mbl.is hef­ur áður fjallað um fram­kvæmd­ir Þingvangs í miðbæn­um, en fé­lagið er meðal ann­ars á bakvið upp­bygg­ing­una við Hljómalind­ar­reit­inn og vænt­an­lega upp­bygg­ingu við Vatns­stígs­reit­inn. Þá kem­ur fé­lagið að bygg­ingu á Lýs­is­reitn­um, þar sem byggðar verða 100 íbúðir.

Gert er ráð fyrir 50-90 smáíbúðum á svokölluðum Brynjureit í …
Gert er ráð fyr­ir 50-90 smá­í­búðum á svo­kölluðum Brynjureit í miðbæn­um. Koma þarf til breyt­ing­ar á bygg­ing­ar­reglu­gerð svo verði af fram­kvæmd­un­um.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK