Stefnt er að uppbyggingu á 100 til 180 smáíbúðum í miðbæ Reykjavíkur gangi áform byggingarfélagsins Þingvangs eftir. Félagið stefnir á að reisa 50 til 90 íbúðir á bilinu 30 til 40 fermetrar á Brynjureitnum, milli Hverfisgötu og Laugavegs, á næstunni, en það er háð breytingum á byggingarreglugerð. Þá er einnig möguleiki að farið verði í svipaðar framkvæmdir á Vatnsstígsreitnum þegar fram líða stundir. Þetta segir Friðjón Friðjónsson, talsmaður Þingvangs í samtali við mbl.is.
Hann segir að hugmyndin sé að gera smáíbúðir sem verði byggðar fyrir einstaklinga og pör, en ekki sé verið að horfa til fjölskyldufólks. Áætlað sé að leigufélag hafi umsjón með eignunum, en áætlaður byggingartími er um þrjú ár.
Vandamálið við að byggja litlar íbúðir í dag er hár byggingakostnaður, en hann er oftast hærri en söluverð. Því hafa verktakar ekki séð tækifæri í að fara út í slíkar framkvæmdir síðustu ár. Friðjón segir að áform Þingvangs byggi á því að umhverfisráðherra láti endurskoða byggingarreglugerð, en mikið ákall hefur verið um slíkt frá verktökum og nú síðast einnig skipulagsyfirvöldum.
Friðjón bendir á að í nýju reglugerðinni séu allskonar ákvæði sem komi sér illa þegar hugmyndin sé að byggja litlar íbúðir fyrir einstaklinga og pör sem vilji búa í litlum íbúðum og nokkuð þröngt. Meðal annars sé gert ráð fyrir að eitt herbergi sé að minnsta kosti 18 fermetrar, þá er tilgreind lágmarksstærð baðherbergis og gerð er krafa um geymslu. Friðjón segir ekki mikið pláss eftir þegar gert hafi verið ráð fyrir þessu öllu.
Íbúðir sem reistar eru sem stúdentaíbúðir hafa undanþágu frá reglugerðinni og því er mögulegt að byggja þær minni en íbúðir fyrir almennan markað. Friðjón segir það vera furðulega ráðstöfun. „Af hverju bara stúdentar, af hverju ekki allir?“ spyr hann og segir Þingvang vilja að reglugerðin verði að lágmarki víkkuð út fyrir einstaklinga sem vilji búa þétt. Án þess sé enginn grundvöllur fyrir því að fara í uppbyggingu á smáíbúðum á svæðinu.
Aðspurður hvað verði byggt á reitnum ef ekki komi til breytingar á reglugerð, segir Friðjón að þá verði horft til þess að byggja færri og stærri íbúðir, svokallaðar lúxusíbúðir. Það sé þó ekki fyrsta val Þingvangs.
Á Brynjureitnum eru einnig uppi áform um að byggja vísi að félagsmiðstöð eða skemmtistað, en Friðjóns segir að forsvarsmenn fyrirtækisins hafi séð þörfina fyrir slíkan stað eftir umræður kringum lokun Nasa og Faktorý. Hann segir að í áætlun sé að gerður verði salur sem hýsi allt að 800 manns, en að hægt væri að nýta hann undir allskonar félagsstarfsemi á daginn. Nefnir hann í því samhengi starfsemi álíka því sem fram fer í Hinu húsinu. „Við teljum það skemmtilegra verkefni en að gera fleiri bílastæði í kjallara,“ segir hann.
Hann bendir á að ekki hafi verið byggður sérstakur tónleikasalur í Reykjavík í áraraðir, ef Harpan er ekki talin með. „Nú höfum við tækifæri til þess,“ segir hann um þá miklu endurskipulagningu og uppbyggingu sem á sér stað á reitunum.
Mbl.is hefur áður fjallað um framkvæmdir Þingvangs í miðbænum, en félagið er meðal annars á bakvið uppbygginguna við Hljómalindarreitinn og væntanlega uppbyggingu við Vatnsstígsreitinn. Þá kemur félagið að byggingu á Lýsisreitnum, þar sem byggðar verða 100 íbúðir.