Hótelið sem mun rísa við Hörpuna verður fyrsta 5 stjörnu hótelið á Íslandi, en Bala Kamallakharan, sem er í forsvari fyrir fjárfestahópinn Auro Investment Partners hér á landi, staðfestir þetta í samtali við mbl.is. Í gær var sagt frá því að hópurinn væri búinn að greiða félaginu Sítus fyrir lóðina, en Sítus er í eigu Reykjavíkurborgar.
Lóðin er að Austurbakka 2 og fór í útboð árið 2011. Félagið World Leisure Investment átti þá hæsta boð, en gekk seinna út úr tilboðinu og var þá farið í samningaviðræður við Auro Investment. Tilboð félagsins í lóðina var um 1,8 milljarður. Auk Auro Investments Partners koma Mannvit og arkitektastofan T.ark að kaupunum.
Kamallakharan segir að enn eigi eftir að ákveða hvert nafn hótelsins verði og hvaða keðju það tilheyri. Í dag sé þó helst verið að takast á um hvort það verði Marriott eða W Hotels.
Hann segir að með því að bæta við gæðaflokk í hótelflóruna hér á landi verði möguleiki á ráðstefnum sem ekki hefðu skoðað Reykjavík annars. Þá geti þetta trekkt að mun fleiri og stærri viðburði en áður hafi verið haldnir hér á landi.
Kamallakharan segir að stórviðburðir séu flestir haldnir í stórborgum, þar sem allur aðbúnaður sé til staðar og hótel fyrir stórstjörnur og auðugt fólk. Með því að byggja 5 stjörnu hótel verði skapaður grunnur til að taka á móti gestum fyrir slíka viðburði.
„Ég tel að þetta sé mjög hagkvæmt og við teljum að það þurfi að hækka þjónustustigið á hótelum hér á landi og eina leiðin til að gera það er að byggja besta hótelið í Reykjavík,“ segir Kamallakharan.
Stefnt var að því að fjöldi herbergja verði um 250, en samkvæmt því sem mbl.is hefur komist næst er lágmarkskostnaður við hótelherbergi í þeim gæðaflokki um 20 milljónir. Því má lauslega áætlað að heildarfjárfesting við 250 herbergja hótel sé í allavega 5 milljarðar.