Reykjavík Geothermal náði í síðustu viku samkomulagi við ríkisstjórn Eþíópíu um byggingu risajarðorkuvers í landinu á næstu árum. Um er að ræða jarðvarmavirkjun á Corbetti öskjunni, um 200 kílómetra suður af Höfuðborg landsins, Addis Ababa, en stefnt er að því að virkjunin verði í heild um 1.000 MW að stærð.
Það er um 50% meira afl en fæst frá Kárahnjúkavirkjun og þrefalt meira afl en fæst frá Hellisheiðarvirkjun. Fyrirtækið verður þróunaraðili verkefnisins og mun sjá um yfirumsjón með fjármögnun, hönnun, sölu og rekstri virkjunarinnar.
Þrátt fyrir að verkefnið sé með þeim stærri sem íslenskt orkufyrirtæki hefur farið í, þá er möguleiki Reykjavík Geothermal töluvert meiri í Eþíópíu, en nú er aðeins verið að horfa á virkjun á einu af fimm svæðum sem fyrirtækið hefur rétt til að virkja á. Í samtali við mbl.is segir Guðmundur Þóroddsson, forstjóri Reykjavík Geothermal, að rannsóknir fyrirtækisins geri ráð fyrir að um tvö- til þrefalt meiri orku megi virkja á svæðunum á komandi árum.
Í heild er áætlað að hægt sé að virkja um 15 þúsund MW í formi jarðvarma í landinu í heild, en til samanburðar má geta þess að samanlagt uppsett afl fallvatns- og jarðvarmavirkjana hér á landi er rúmlega 3.300 MW.
Guðmundur segir að starfsmenn fyrirtækisins hafi margir hverjir verið í samstarfi við Eþíópíumenn gegnum árin. Þá hafi tengslin aukist til muna með tilkomu Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna hér á landi. Það var svo eþíópíska fyrirtækið Rift Valley Geothermal sem hafði samband við Reykjavík Geothermal og óskaði eftir samstarfi vegna uppbyggingar í landinu.
Nú eru liðin um tvö ár frá því að fyrstu rannsóknir fóru fram, en Guðmundur segir að þær séu allar mjög jákvæðar. „Við yrðum mjög hissa ef orkan væri ekki til staðar,“ segir Guðmundur. Hann segir að talað sé um þrjú græn ljós í kringum jarðhitaverkefni. Að jarðeðlisfræðilegar, jarðefnafræðilegar og jarðuppbyggingalegar rannsóknir séu jákvæðar. Til viðbótar við það bætist að merki sé um jarðhita á yfirborði. „Ef allir þessir þættir eru með þér, þá eru menn býsna bjartsýnir og í Corbetti er það svo,“ segir Guðmundur. Fljótlega verður farið í tilraunaboranir og er Guðmundur jákvæður á niðurstöður þeirra. „Þetta eru bestu vísbendingar sem maður getur haft áður en búið er að bora.“
Nýting jarðvarma í Eþíópíu er mjög skammt á veg komin, en aðeins ein 5 MW virkjun á vegum ríkisins er í gangi. Verkefni Reykjavík Geothermal er því fyrsta einkaframkvæmdin í jarðvarma í landinu og mun tvöhundruðfalda það afl sem er virkjað í landinu.
Svæðið sem verið er að skoða núna er þó ekki eina mögulega virkjunarsvæði Reykjavík Geothermal. Fyrirtækið á rétt á að virkja á fimm svæðum í Eþíópíu. Aðeins er búið að rannsaka eitt þeirra gaumgæfilega, þar sem nú á að reisa virkjunina. Segir Guðmundur að gera megi ráð fyrir að hafist verði handa við rannsóknir á næstu svæðum á komandi árum.
Viðræður hafa verið við Jarðboranir varðandi aðkomu að verkefninu og segir Guðmundur að slíkur samningur gæti orðið mjög stór fjárfesting í íslensku hugviti og reynslu. Þá sé nokkuð líklegt að íslensku verkfræðistofurnar sem hafi mikla þekkingu á jarðvarma komi nálægt þessu verkefni.
Spurður um fjölda verkfræðinga sem kæmu að svona verkefni segir Guðmundur að fjöldinn myndi nema hundruðum, en ekki væri þó víst að allir þeirra kæmu frá Íslandi. Þannig sé ágætis tækniþekking í Eþíópíu og Kenía, þar sem þegar hefur verið virkjað töluvert.
Reykjavík Geothermal var stofnað árið 2008 af nokkrum fyrrverandi jarðhitasérfræðingum Orkuveitu Reykjavíkur. Auk þeirra var Guðmundur, en hann er fyrrverandi forstjóri Orkuveitunnar. Til viðbótar við verkefnið í Eþíópíu hefur fyrirtækið komið að ráðgjafarstörfum og rannsóknum í Mexíkó og Saint Vincent.