Gætu upplýst um stærri undanskot fljótlega

Torstein Fensby, verkefnastjóri hjá Norrænu ráðherranefndinni, er bjartsýnn á að …
Torstein Fensby, verkefnastjóri hjá Norrænu ráðherranefndinni, er bjartsýnn á að stærri skattaundanskot verði upplýst á næstu árum. Rósa Braga

Til að uppræta skattaundanskot til aflandssvæða er þörf á sameiginlegu alþjóðlegu átaki, en slíkt gæti reynst þrautin þyngri. Þannig eru bæði pólitískar og efnahagslegar ástæður fyrir því að lönd viðhaldi þeirri leynd sem er í kringum bankakerfin, sem oft geyma stórar upphæðir sem hefur verið komið undan skattálagningu í öðrum löndum. Þetta segir Torstein Fensby, verkefnastjóri hjá Norrænu ráðherranefndinni, en hann hefur síðustu 7 ár komið að því að semja, fyrir hönd Norðurlandanna, við skattaskjól um gagnkvæma upplýsingaskyldu þegar kemur að skattamálum. Hann var einn frummælanda á fundi Norræna hússins, Alþjóðastofnunar Háskóla Íslands og Kjarnans um skattaskjól.

Bjartsýnn að núverandi aðgerðir leiði til stærri uppljóstrana

Fensby er þó mjög bjartsýnn á að undir núverandi regluverki og með þeim aðgerðum sem verið er að vinna í muni brátt koma til þess að aðilar geti ekki snúið á skattayfirvöld. Þannig segir hann að með tvísköttunar- og upplýsingaskiptisamningum við flest aflandssvæði í heiminum hafi Norðurlöndin færst nær þessum áfanga.

Með aukinni reynslu samninganna verði möguleiki á því að upplýsa um stærri skattaundanskot en hingað til hafi komið upp á borð yfirvalda. Hann segir að sú staða sé ekki langt undan, jafnvel innan fárra ára.

Sameiginlegt átak nauðsynlegt

Fensby bendir á að ekki sé nauðsynlegt að semja við öll fjármálakerfi heims. Mörg þeirra séu of lítil til að geta staðið fyrir stórum aflandssvæðum og eftir að hafa samið við 43 þekktar skattaparadísir um skiptaupplýsingasamninga, þá sé aðeins eftir að semja við Hong Kong og Dubai. Hann er bjartsýnn á að það náist á næstunni, en tekur fram að ef svo sé ekki, þá sé öll fyrri vinna unnin fyrir gýg, þar sem auðvelt sé að færa fjármuni milli landa og að þessi tvö lönd séu með svo stórt fjármálakerfi að þau gætu auðveldlega tekið við öllum innistæðum sem íbúar Norðurlandanna eiga í skattaskjólum.

Fensby segir að almennt séu skattaskjól mjög hættuleg fyrir alþjóðlegt viðskiptalíf. Þannig komist fyrirtæki hjá því að greiða skatta í ákveðnum löndum og slíkt breyti samkeppnisstöðu þeirra. Hann segir aftur á móti að öll lönd þurfi með sameiginlegu átaki að taka á þessu vandamáli, sé ætlunin að uppræta það. Ef það gerist ekki flytjist vandamálið bara til nýrra landa, enda um mjög færanlega fjármuni að ræða sem hægt sé að flytja með einum músarsmelli.

Ólíklegt að Lúxemborg gefi strax eftir stöðu sína sem skattaskjól

Nýlegar fréttir frá Lúxemborg þess efnis að þar ætli menn að koma að fullu til móts við lönd Evrópusambandsins varðandi upplýsingar í skattamálum hafa komið af stað nokkurri bjartsýni í þessum efni. Fensby segir þetta útspil í Lúxemborg þó væntanlega vera herkænsku, þar sem þeir viti að Bretland muni t.d. seint vilja svona samstarf. Það yrði of fordæmisgefandi og Bretland sé ólíklegt til að vilja binda fjármálakerfið í viðbótar reglugerðir.

Að sama skapi hefði Sviss fórnað minni hagsmunum fyrir meiri með því að ákveða að gefa upp reikninga hjá aðilum sem eru með ákveðið háar upphæðir inni á reikningum í Sviss. Þetta á aftur á móti ekki við um stærstu aðilana, en þeir greiða mesta þóknun fyrir þá þjónustu að fá að fela peninga á erlendum reikningum. Segir Fensby að sigur fáist ekki fyrr en stærstu aðilarnir sjái ekki hag sinn í því að setja upp slík undanskotskerfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK