Japan Airlines hefur samið við Airbus um kaup á 31 flugvél. Samningurinn hljóðar upp á 9,5 milljarða bandaríkjadala. Helsti keppinautur Airbus, Boeing, hefur hingað til haft yfirburðastöðu á flugmarkaði í Japan.
Japan Airlines mun kaupa 18 vélar af gerðinni A350-900 og 13 af gerðinni A350-1000. Þá er fyrirvari í samningnum um kaup á 25 vélum til viðbótar.
Nýju vélarnar verða teknar í notkun árið 2019 og koma í stað Boeing-flota félagsins.
„Þetta er nýr kafli í samstarfi Airbus og Japan Airlines,“ segir forstjóri Airbus, Fabrice Bregier. Hann segir að um sé að ræða stærstu pöntun félagsins á þessu ári.
Hann segir Japan mjög mikilvægan markað. Hlutabréf í Japan Airlines hækkuðu um 3,01% í dag í kjölfar þessara frétta.