Útilokar að kaupa stolin gögn

Bryndís Kristjánsdóttir, skattrannsóknarstjóri á fundinum í morgun.
Bryndís Kristjánsdóttir, skattrannsóknarstjóri á fundinum í morgun. Rósa Braga

Á síðustu árum hefur aðgengi að skattaupplýsingum frá aflandssvæðum batnað umtalsvert, en 43 samningar hafa verið gerðir milli Norðurlandanna og þekktra aflandssvæða um upplýsingaskiptisamninga. Þrátt fyrir það getur verið vandamál að nálgast þessar upplýsingar þar sem fyrirtæki á þessum stöðum eru ekki skylduð til að skila jafn nákvæmum upplýsingum og við þekkjum. Þetta sagði Bryndís Kristjánsdóttir  skattrannsóknarstjóri á fundi Norræna hússins, Alþjóðastofnunar Háskóla Íslands og Kjarnans um skattaskjól í morgun.

Reynsla að komast á núverandi samninga

Hún segir að samningarnir virki og að engin vandamál hafi komið upp við að afla þeirra gagna sem kveðið er á um í þeim. Helsta vandamálið sé aftur á móti að í mörgum þessara landa sé ekki skylda að halda lögbundið bókhald og gefa út ársreikninga. Þá séu mjög oft mjög takmarkaðar bankaupplýsingar. Þá séu margir samningarnir nýir og jafnvel ekki búnir að taka gildi. Því sé reynslan ekki orðin mjög mikil.

Upplýsingar hafa verið sóttar til Jersey, Belís, Mön og Bresku Jómfrúareyjanna. Segir Bryndís að flestar fyrirspurnirnar hafi verið til síðastnefnda svæðisins, en föllnu bankarnir hafi í miklum mæli boðið þjónustu þar. Með þessu skeri Ísland sig nokkuð frá öðrum Norðurlöndum, en oftast nái slóðin mun víðar. Segir Bryndís að til að mynda hafi Mónakó, sem hingað til hafi verið þekkt sem skattaskjól í Evrópu, ekkert komið til skoðunar embættisins.

Útilokar að kaupa stolin gögn

Á fundinum í morgun var einnig rætt um hvort rétt væri að nýta gögn um eignir í skattaskjólum sem er lekið eða eru boðin til kaups. Bryndís segir að Ísland hafi ekki keypt slík gögn og útilokaði að slíkt yrði gert á næstunni.

Nýlega fréttist af gífurlegu magni upplýsinga sem væru til sölu um tugi ef ekki hundruð þúsunda aðila og reikninga þeirra í skattaskjólum. Bryndís sagði að þrátt fyrir að skattrannsóknarembættið hefði ekki keypt þessi gögn þá hefði Bretland fengið þau í hendurnar. Nú væri í gangi vinna hjá Norðurlöndunum við að fá einnig aðgang að þessum upplýsingum. Með því geti Ísland nýtt sér slíkar upplýsingar, án þess að stefna samvinnu við önnur skattaskjól í hættu, en bæði Bryndís og Torstein Fensby ræddu um það á ráðstefnunni að það að kaupa upplýsingar gæti verið varasamt skref.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK