Michael Philipp, stjórnarformaður og einn aðaleigenda Reykjavík Geothermal (RG), var meðal ráðstefnugesta á ráðstefnunni Arctic Circle sem fram fór í Hörpu um helgina.
RG samdi nýverið við ríkisstjórn Eþíópíu um að byggja og reka allt að 1.000 megavatta jarðvarmaorkuver í landinu. Áætluð fjárfesting verkefnisins er 4 milljarðar bandaríkjadala, eða um 500 milljarðar íslenskra króna.
„Bæði Bandaríkjastjórn og þróunarbanki Afríku taka þátt í þessu verkefni í Eþíópíu,“ segir Michael Philipp. Philipp er ekki ókunnugur stórum fjárhæðum, því áður en hann færði sig yfir í orkugeirann var hann um 30 ára skeið hátt skrifaður hjá Merrill Lynch, Credit Suisse, Goldman Sachs og Deutsche Bank. Þar að auki er hann í stjórn aðalstjórnar náttúruverndarsamtakanna World Wildlife Fund.
„Síðustu 15 árin áður en ég sagði skilið við bankageirann starfaði ég aðallega í Mið-Austurlöndum og Afríku. Þegar ég hætti hjá Credit Suisse í júní árið 2008 stofnaði ég fjölskyldufyrirtækið Ambata, sem sérhæfir sig í hreinni orku og sjálfbærni, þá lá beinast við að leggja áherslu á þennan heimshluta.“
Philipp komst í kynni við RG í Abu Dhabi þar sem fyrirtæki hans og RG voru með skrifstofur á sama stað. „Þeir sögðu okkur frá hvernig RG vildi koma af stað þróunarverkefnum víðsvegar um heiminn, sérstaklega í nýmarkaðsríkjum. RG höfðu starfað með stjórnvöldum í Kenía þannig að við hófum okkar samstarf þar. Í lok árs 2010 atvikaðist það svo að við færðum okkur yfir til Eþíópíu.“
„Bæði Bandaríkjastjórn, í krafti verkefnisins „Power Africa“ og með aðkomu þróunarbanka Afríku, sem setti nýlega á stofn 10 milljarða dala sjóð til orkufjárfestingar hafa komið að fjármögnun verkefnisins.“ Fjármögnun verkefnisins segir hann að öllum líkindum verða lokið einhvern tíma á næsta ári, og að fljótlega verði farið í að bora tilraunaholur.
Hann telur engan vafa leika á að verkefnið í Eþíópíu sé einungis það fyrsta af mörgum sem fyrirtækið muni ráðast í í Afríku. „Núverandi verkefni verður unnið í tveimur skrefum, þar sem við munum ráðast í tvær 500 megavatta virkjanir. Við teljum að í Eþíópíu séu um 20.000 megavött af nýtanlegri jarðvarmaorku og að svipaða sögu sé að segja í Kenía. Önnur lönd í austurhluta Afríku hafa yfir einhverju minna að ráða.“
Hann segir að undanfarna tvo eða þrjá áratugi hafi jarðvarmi verið nýttur í Kenía og að búið sé að virkja nokkur hundruð megavött af jarðvarmaorku þar í landi, en áætlanir séu uppi um að virkja 10.000 megavött. „Það hefur hins vegar gengið hægt. Þeir hafa verið mjög yfirlýsingaglaðir en ekki framkvæmt mikið. Þegar við sáum hvað hlutirnir gengu hægt fyrir sig í Kenía ákváðum við að Eþíópía væri betri kostur.“
Eþíópíumenn hafi hins vegar verið tregir til að hleypa erlendum aðilum inn í landið til að vinna orkuna. „Þeir hafa alltaf gert þetta sjálfir. Hins vegar var ljóst að þegar kæmi að virkjun jarðvarma og vindorku þyrftu þeir á aðstoð að halda. Orkuiðnaðurinn hefur mikinn stuðning innan ríkisstjórnar landsins, svo við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því. Við þurftum hins vegar að sannfæra orkumálaráðuneytið um að það væri góð hugmynd að hleypa erlendum aðilum inn í landið með sína þekkingu og fjármagn, hvernig Eþíópía myndi hagnast á þessu og svo framvegis.“
Philipp segir að Íslendingar hafi staðið mjög vel að verki í þeim efnum þannig að ríkisstjórn Eþíópíu hafi tekið RG opnum örmum.
Hann segir ríkisstjórn Eþíópíu ætla sér að framleiða rafmagn með sínum jarðhita. „Við höfum bent þeim á að það sé margt annað hægt að gera við jarðhitann. Það liggur kannski í augum uppi að það þarf ekki að kynda megnið af landinu allt árið, þó svo það eigi ekki við um landið í heild.“
Hann segir Íslendinga búa yfir svo miklum jarðvarma og möguleikum á að framleiða rafmagn að það liggi beint við að leggja sæstreng yfir hafið til að flytja út rafmagn. „Álvinnsla hefur kannski náð hámarki. Hins vegar eru möguleikar á að reisa hér gagnaver eða rafvæða bílaflotann. Íslendingar ættu ekki að hafa áhyggjur af því að nýta sína orkugjafa á góðan hátt, þið skarið fram úr í þeim efnum. Þið hafið ótrúlega þekkingu þegar kemur að jarðvarma- og vatnsaflsvirkjunum og eruð á heimsvísu álitin í fremsta flokki á þeim sviðum, og á sviði hreinnar orku.“
Hann segir jarðvarmaorku hafa átt erfitt uppdráttar á heimsvísu því fólk telur auðlindina ekki örugga, sem hann segir ekki rétt. „Þetta stafar af því að þeir sem gera þetta erlendis hafa kannski ekki nægilega reynslu, bora á köldum svæðum og vinna ekki heimavinnuna sína þegar kemur að rannsóknum. Þetta er gert til að draga úr kostnaði, sem á endanum skaðar verkefnið. Við trúum því að það sé betra að borga meira og fá besta fólkið.“
Við þær aðstæður segir hann að í staðinn þurfi að taka pólitíska áhættu. „Þú þarft kannski að fást við ríkisstjórn í Afríku, sem er ef til vill ókunnug stórum orkuiðnaði eða jarðvarmaorku, auk þess sem fjárfestar eru feimnir við að fara á þær slóðir. Þegar menn hins vegar sjá verkefni eins og þetta í Eþíópíu, þar sem tæknikunnátta Íslendinga og fjármagn frá Bandaríkjunum og víðar, þá fær fólk meiri trú á þessu.“
Hann segir RG ekki taka þátt í að fullnýta jarðvarmaorku Eþíópíu. „Ekki á þeim tíma sem ég á eftir á þessari jörð,“segir Philipp. „Við tökum kannski þátt í að keyra upp fyrstu 3.000 til 5.000 megavöttin. Það verða margir sem koma í kjölfarið en við viljum vera fyrstir og sýna fólki fram á að þetta sé hægt. Það starfa bara 25 manns hjá RG, þeirra á meðal ég, svo það þurfa aðrir að koma að boruninni, túrbínunum, við þurfum fleiri vísindamenn og svo framvegis.“
Ásamt því að vinna að því að gera hreina orku aðgengilegri í Afríku og Mið-Austurlöndum er Michael Philipp í stjórn World Wildlife Fund. „Ég hef tekið þátt í starfi þeirra í aldarfjórðung. Það byrjaði þegar ég fór að gefa þeim framlög meðan ég starfaði hjá Merrill Lynch í New York. Fyrir átta árum var mér boðið í ráðgjafanefnd þeirra í Bandaríkjunum og einbeitti mér að varðveislu sjávarlífríkis. Fyrir tveimur árum var mér svo boðið að taka sæti í aðalstjórn WWF og hef undanfarið unnið að því að fjármagna þjóðgarða Bútan, sem eru ríflega helmingurinn af öllu landsvæði landsins.“
Samið um jarðhitaverkefni fyrir hálfan milljarð
500 milljarða fjárfesting í Eþíópíu