Apogee, sem sagt var undir forystu Jóhannesar Jónssonar, stofnanda Bónuss, og viðskiptafélaga seldi hlutabréf fyrir 937 milljónir króna árið 2012.
Ætla má að um sé að ræða söluandvirðið af sölu á helmingshlut í hinu færeyska SMS sem rekur tíu verslanir þar í landi. Jóhannes, sem lést í sumar, sagði við Morgunblaðið árið 2012 að hluturinn í SMS hefði að mestu verið skuldsettur. Ekki er vitað hverjir fyrrnefndir viðskiptafélagar eru.
Apogee, sem skráð er á Íslandi, er í eigu Moon Capital sem skráð er í Lúxemborg. Eignarhald þessara félaga er óljóst og hafa þau ýmist verið sögð lúta stjórn Jóhannesar eða Ingibjargar Pálmadóttur, eiginkonu Jóns Ásgeirs, sonar Jóhannesar, að því er fram kemur í fréttaskýringu um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.