Þriggja milljarða króna millifærslan sem fréttavefur RÚV segir að ákæra sérstaks saksóknara gegn Hannes Smárasyni, fyrrverandi stjórnarformanni og síðar forstjóra FL Group, snúist um er vegna viðskipta FL Group með flugfélagið Sterling. Árið 2005 keypti FL Group flugfélagið af Fons fyrir 15 milljarða, en þá hafði verðmiði félagsins hækkað um 11 milljarða á sjö mánuðum. Í kringum viðskiptin fór þriggja milljarða millifærsla af reikningum FL Group sem aldrei hefur komið skýring á hvert fór.
Í tilkynningu sem Ragnhildur Geirsdóttir, sem var forstjóri FL Group frá því í júní 2005 til október sama ár, sendi frá sér í kjölfar skýrslu rannsóknanefndar Alþingis árið 2010, segir hún að ástæða uppsagnar sinnar hafi meðal annars verið ósætti við Hannes Smárason vegna umræddrar millifærslu. Auk hennar hættu sex stjórnarmenn í félaginu á þessum tíma.
Sagði Ragnhildur að um það leiti sem hún tók við starfi forstjóra hafi hún fengið vitneskju af því að Hannes hafi í apríl sama ár látið millifæra tæplega 3 milljarða af reikningum félagsins til Kaupþings í Lúxemborg. Engar skýringar, lánaskjöl eða önnur gögn voru til um málið og millifærslan var án vitneskju annarra stjórnarmanna félagsins. Segir hún að Hannes hafi gefið þá skýringu að fjármunirnir væru í vörslu Kaupþings í Lúxemborg og ættu að vera þar til reiðu ef taka þyrfti skyndiákvarðanir um fjárfestingar.
Kaupþing neitaði ítrekað að gefa henni upplýsingar um peningana og endurskoðendur neituðu að endurskoða reikninga félagsins nema upplýst væri hvar peningarnir væru niðurkomnir eða þeir endurgreiddir. Loks hafi Kaupþing svo millifært þá til baka ásamt vöxtum fyrir lok júní.
Segir Ragnhildur að aldrei hafi verið gefin fullnægjandi skýringar á millifærslumálinu, en skömmu eftir það sögðu þrír stjórnarmenn sig frá stjórninni. Sagðist hún hafa vitneskju um að peningarnir hafi „á einhverjum tímapunkti, í einhverjum tilgangi, verið millifærðir á Fons.“
Eigandi Fons, Pálmi Haraldsson, var náinn viðskiptafélagi Hannesar, en þeir höfðu um árabil fjárfest í sölu fyrirtækjunum og hafði Fons meðal annars átt hlut í FL Group og sat meðal annars í stjórn félagsins á árunum 2007 til 2008. Þegar FL Group seldi svo Sterling aftur árið 2006 var kaupandinn nýstofnað félag sem hét NTH, en stærstu hluthafar þess voru Fons og FL Group.
Hannes Smárason sagði í tilkynningu vegna húsleitar hjá sér árið 2009 að millifærslan hafi ekki verið ólögmæt og um hafi verið að ræða færslu milli bankareikninga í eigu félagsins, en ekki ólögmæta lánveitingu til Hannesar. Þá hafi hvorki Hannes né aðili tengdur honum tekið við fénu.