Frumkvöðlar læri af mistökum

Nýsköpunarhádegi Klak Innovit var haldið í frumkvöðlasetrinu á Eiðistorgi í …
Nýsköpunarhádegi Klak Innovit var haldið í frumkvöðlasetrinu á Eiðistorgi í dag. mbl.is/Eggert

Haukur Guðjónsson, frumkvöðull og framkvæmdastjóri Búngaló, segir að á Íslandi sé enn litið á gjaldþrot fyrirtækja, sér í lagi frumkvöðlafyrirtækja, sem neikvæðan hlut. Svo sé raunin hins vegar ekki erlendis. Þar sé litið á gjaldþrot sem ákveðið tækifæri. Frumkvöðlar geti þá nýtt sér reynsluna þegar þeir fara í næsta verkefni. Haukur hélt erindi á nýsköpunarhádegi Klak Innovit í frumkvöðlasetrinu Innovation House á Eiðistorgi í dag, en umfjöllunarefnið var samanburður á sprotaumhverfi hérlendis og erlendis.

Haukur sagði að Ísland væri heldur sérstakur markaður. „Ég hef áttað mig betur og betur á því í störfum mínum erlendis,“ sagði hann, en Haukur hefur ferðast til Bandaríkjanna, hitt frumkvöðla og aðstoðað þar fyrirtæki. Íslenski markaðurinn er aðeins 320 þúsund manna markaður og því vakni óneitanlega spurningar um hvort hægt sé að skila hagnaði á svo litlum markaði. „Kanadískir frumkvöðlar sögðu við mig að þeim fyndist kanadíski markaðurinn vera alltof lítill,“ sagði Haukur, en yfir 35 milljónir búa í Kanada.

Dýrt að stofna fyrirtæki

Hann benti einnig á að dýrt væri að stofna fyrirtæki hér á landi. Það kostar 140 þúsund krónur að skrá fyrirtæki á Íslandi sem er miklu mun meira en annars staðar. Þannig sagði Haukur að það kostaði ekki neitt að skrá fyrirtæki í Danmörku og ríflega 50 þúsund krónur í Kanada. Þá sé lágmarkshlutafé í einkahlutafélögum 500 þúsund krónur en ekki neitt í Bandaríkjunum og Kanada. Við þetta bætist svo pappírsvinna sem margir hafa ekki tök á að sinna. „Þessar hömlur gera okkur erfiðara fyrir. Eins og þeir þekkja sem eru í frumkvöðlastarfi þá skiptir hver króna máli,“ sagði hann. Það væri nógu erfitt fyrir frumkvöðlafyrirtæki að komast lífs af áður en ríkið kæmi með allar sínar kröfur.

Gjaldeyrishöftin eru líka Þrándur í götu, að mati Hauks. Þau geri það að verkum að íslensk fyrirtæki verði að stofna dóttur- eða móðurfélag á erlendri grundu, ef þau vilja vaxa á alþjóðlegum vettvangi, til að komast hjá þeim erfiðleikum sem höftunum fylgja. Sagðist hann þekkja það af eigin raun.

Undir það tók Sigmar Guðbjörnsson, formaður Samtaka sprotafyrirtækja og framkvæmdastjóri Stjörnu-Odda. „Gjaldeyrishöftin virka í báðar áttir. Þau koma í veg fyrir að við förum með fjármagn úr landi og hindra það að erlendir aðilar komi með fjármagn inn í landið,“ benti hann á. „Það er hægt að flytja inn erlendan gjaldeyri í gegnum Seðlabanka Íslands og fá 20% afslátt af íslenskum krónum. Það sama á við um sprotafyrirtæki. Ef einhver ætlar að kaupa hlut í slíku fyrirtæki þá er það nú þegar komið á útsöluverð, 20%, í gegnum Seðlabanka Íslands,“ sagði hann enn fremur.

Bandarískir frumkvöðlar ófeimnir

„Það er merkilegt að í Bandaríkjunum eru frumkvöðlar miklu öflugri en hér á landi að byggja upp tengslanet,“ sagði Haukur. Á Íslandi væri hver í sínu horni. „Ung, íslensk frumkvöðlafyrirtæki, sem vilja ná árangri, þurfa að vera ófeimin,“ sagði hann. Þá nefndi hann að mun meiri frumkvöðlaorka væri til staðar í Bandaríkjunum en hér á landi. Þó sæjust merki um að hún hefði aukist með tilkomu frumkvöðlasetursins. Hann benti einnig á það hugarfar, sem virðist vera ráðandi hjá íslenskum frumkvöðlum, að ætla að leysa öll vandamál heimsins. „Við getum ekki leyst öll þau vandamál sem til eru heldur þurfum við bara að leysa eitt vandamál fyrir afmarkaðan hóp.“ Hópurinn þurfi bara að vera nógu stór til að reksturinn standi undir sér.

Íslenskir frumkvöðlar hafa margir hverjir bent á að erfitt sé að nálgast fjármagn á Íslandi. Haukur sagði svo vera en benti jafnframt á að frumkvöðlar um allan heim ættu í sömu vandræðum. „Það eru ákveðnar undantekningar, eins og í San Francisco, en þær eru mjög fáar.“ Sagði hann að margir fjárfestar væru gamaldags og skildu ekki ferlið í kringum nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi.

Fákeppni á milli íslenskra fjárfesta 

Í erindi sínu sagði Sigmar að í raun ríkti fákeppni á milli fjárfesta á Íslandi. „Eru fjárfestar að slást um að fá að fjárfesta í einhverju íslensku sprotafyrirtæki?“ Samkvæmt öllu ætti, að mati Sigmars, að vera slagur um þátttöku í góðum frumkvöðlaverkefnum. „En ég hef aldrei heyrt minnst á slíka baráttu um að fá að fjárfesta í íslenskum fyrirtækjum. Þetta sér maður erlendis en ekki á Íslandi.“ Dró hann þess vegna þá ályktun að bestu hugmyndirnar hér á landi væru að fara of ódýrt til fjárfesta.

Það er mat Sigmars að íslenskir fjárfestar geymi „atvinnulaust“ fjármagn í banka eða noti það í kaup á ríkisskuldabréfum, frekar en að koma því í vinnu. „Það eru tækifæri, það er fjármagn en umhverfið er okkur ekki hagstætt,“ sagði hann.

Sigmar hvatti íslenska frumkvöðla til að leita að fjármagni erlendis. „Það er ágætt að átta sig á því hvort maður þurfi fjármagn eða fjármagn með þekkingu. Það er ekkert víst að hægt sé að fá fjármagn með þeirri þekkingu sem verið er að sækjast eftir á Íslandi.“ Sagði hann það gott fyrir íslenska frumkvöðla að fá utanaðkomandi erlenda aðila til að skoða starfsemina og hugmyndirnar. „Það er ekkert víst að maður fái uppbyggilega gagnrýni frá bönkum en það er alveg örugglega hægt að fá uppbyggilega gagnrýni frá öðrum sprotum og sérfræðingum,“ sagði hann.

Sigmar Guðbjörnsson, formaður Samtaka sprotafyrirtækja.
Sigmar Guðbjörnsson, formaður Samtaka sprotafyrirtækja. mbl.is/Eggert
Haukur Guðjónsson, frumkvöðull og framkvæmdastjóri Búngaló.
Haukur Guðjónsson, frumkvöðull og framkvæmdastjóri Búngaló. mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK