Heimsmet, hjól og Harry prins á Suðurpólnum

Frá Suðurpólnum í vikunni. Starfsmenn Arctic Trucks hafa verið að …
Frá Suðurpólnum í vikunni. Starfsmenn Arctic Trucks hafa verið að koma bílunum í gott ásigkomulag, en þeir hafa síðustu níu mánuði staðið óhreyfðir.

Jeppabreytingafyrirtækið Arctic Trucks hefur á síðustu árum vaxið mikið og er nú með starfsstöðvar í fjórum löndum og heldur úti viðamikilli ferðaþjónustu á Suðurskautslandinu. Allt í allt breytir fyrirtækið á milli 300 til 400 bílum árlega, en sumir þeirra eru sérstaklega hannaðir fyrir erfiðustu aðstæður sem fyrirfinnast á jörðinni. Þessa dagana er að hefjast Suðurskautstímabilið, en það stendur að jafnaði yfir í tæplega tvo og hálfan mánuð. Í ár eru áformuð fimm stærri verkefni, en auk þess sér fyrirtækið um fjölda smærri verkefna.

Á tímabilinu sem er að hefjast mun Arctic Trucks koma að mörgum mismunandi verkefnum, til dæmis nýrri tilraun til hraðamets, fyrsta manninum sem ætlar að hjóla á pólinn og skíðagöngu með Harry Bretaprins og særðum hermönnum.

Byrjaði með ferð Topgear

Guðmundur Guðjónsson er verkefnastjóri Suðurpólsdeildar Arctic Trucks á Íslandi, en sú deild fyrirtækisins hefur staðið fyrir heimskautaferðunum og breytingum á sérstökum 6x6 jeppum sem eru sérhannaðir til Suðurskautaferða. Í samtali við mbl.is segir hann að í ljósi þess að síðustu ár hafi lítið verið að gera við breytingar hér á landi hafi fyrirtækið ákveðið að reyna að nýta þekkingu og reynslu manna hér á landi til tekjuöflunar með að fara þessa leið og það hafi gefið vel.

Hugmyndin varð til árið 2007 þegar Arctic Trucks fór með félagana í breska sjónvarpsþættinum Topgear á segulnorðurpólinn. Guðmundur segir að þar hafi fyrirtækið kynnst því að nota bíla í heimskautaleiðöngrum og fólk frétti af þeim. Það hafi orðið til þess að fyrirtækið Extreme World Races hafði samband við Arctic Trucks og keypti fjóra sérhannaða bíla fyrir 2008-9 tímabilið. Farið var í 2400 kílómetra leiðangur, en tveir ökumenn, sem einnig eru viðgerðarmenn fóru á vegum fyrirtækisins suður eftir.

Keyptu bílana aftur og gerðust ferðaþjónustuaðili

Fyrir einu og hálfu ári ákvað svo Arctic Trucks að kaupa aftur alla bílana sem voru í eigu Extreme World Races og í dag á fyrirtækið sex bíla á Suðurskautinu. Einn bætist svo við á næstu dögum, en hann er þessa stundina í Síle og mun svo fylgja 19 ára strák sem ætlar að bæta hraðametið á pólinn í næsta mánuði. Með þessu segir Guðmundur að fyrirtækið geti þjónustað fleiri og fjölbreyttari verkefni en áður fyrr. Þá sé Arctic Trucks á góðri leið með að verða stærsti ferðaþjónustuaðilinn á svæðinu.

Auk þess að bjóða upp á eigin þjónustu hefur fyrirtækið verið duglegt að breyta bílum fyrir aðrar stofnanir og fyrirtæki sem vilja hafa traustan fararkost á svæðinu. Í heild hefur fyrirtækið breytt 19 bílum sem nú eru í notkun á svæðinu. Meðal þeirra sem hafa keypt bíla frá þeim eru finnsku og indversku heimskautarannsóknarstofnanirnar og rússneskt fyrirtæki sem rekur flugvöll og starfsstöð í Novo, þaðan sem Arctic Trucks gera sína starfsemi út frá. Guðmundur segir að á þessu ári ætli þeir þó einnig að bæta við sig og vera með bíl á Union Glacier, en þangað flýgur fólk frá Suður-Ameríku sem ætlar að fara á pólinn.

„Hleypur ekki á milljónum heldur tugum milljóna“

Guðmundur segir bílana vera vinsæla á heimskautasvæðinu þar sem þeir hafi sýnt að þeir eru fljótari en önnur tæki sem eru til taks á svæðinu og þá sé eldsneytisnotkun þeirra lítil miðað við aðra faraskjóta. Sérhönnuðu bílarnir eru einnig með mikla burðargetu og geta borið eigin þyngd aukalega.

Þrátt fyrir að vera fljótleg og áhrifarík leið til að komast áfram á heimskautasvæðinu, þá er kostnaðurinn nokkuð mikill fyrir ferðamenn. Guðmundur bendir á að einn sérbreyttur bíll kosti um 36 milljónir, en þá á eftir að taka með í reikninginn dýran fjarskiptabúnað og annan aukabúnað sem einstaklingar vilji oft hafa í bílunum. Þá sé dýrt að flytja eldsneyti og aðrar birgðir á Suðurskautið og segir hann að milljónirnar séu fljótar að fara í þessum geira. „Þetta eru mjög dýrar ferðir og verðið hleypur ekki á milljónum heldur tugum milljóna,“ segir hann og segir að menn séu ekki lengi að fara yfir hundrað milljónir. Bendir hann á að einungis flugmiði fyrir einn farþega frá Höfðaborg kosti 15.500 evrur, eða um 2,5 milljónir íslenskra króna, en þá eigi eftir að koma öllum farangri þangað.

Bílarnir sem um er að ræða eru allir 6x6 Toyota Hilux með þriggja lítra dísil vélum. Guðmundur segir að þá hafi ný grind verið smíðuð í alla bíla og til viðbótar bætast sérsmíðuð fjöðrun og hitun kringum eldsneytistanka og vél. Í heild sé bíllinn 2900 kíló í þurrvigt, en þá sé hægt að bæta allt að 650 lítrum af eldsneyti og 1,5 tonnum af farangri við áður en haldið sé af stað. Samanlögð þyngd bílanna er því kringum 5,5 tonn þegar allt er talið.

Frostið fer niður í -50°C, en er vel viðráðanlegt í -30°C

Eins og fyrr segir er ferðatímabilið á Suðurskautslandinu um tveir og hálfur mánuður og hefst það um miðjan nóvember. Þetta helgast af því að kuldinn getur orðið gífurlegur utan sumartímans. Fyrsti leiðangurinn fór af stað í gær, þremur dögum á eftir áætlun. Guðmundur segir það vera í fyrsta lagi, en keyrt er upp í rúmlega 3500 metra hæð áður en komið er inn á hásléttuna og segir Guðmundur að þar geti menn farið í allt að -50°C frost. „Það er alveg á mörkunum fyrir menn og bíla til að starfa í, það má voðalega lítið út af bregða þegar það er orðið svo kalt“.

Eftir fjallgarðinn er lækkun niður í um 2800 metra og er þá almennt jafnara veður. Segir Guðmundur að þar verði frostið um -40 til -45°C á köldustu dögunum, en skáni svo eftir því sem líður á. „Inn í desember er frostið bara rétt í kringum -30°C sem er vel viðráðanlegt,“ segir hann.

Í heild er Arctic Trucks með sjö starfsmenn á Suðurskautslandinu, en Guðmundur segir þá sinna akstri og viðhaldi bílanna auk þess að sinna stundum öðrum smáverkefnum. Til viðbótar bætast stundum við sérhæfðir einstaklingar, en núna er til dæmis einn sjúkraflutningamaður á vegum fyrirtækisins til að aðstoða við ferð hermanna sem hafa misst útlimi (e. Walking with the Wounded).

Auðvelt að fá starfsfólk

Guðmundur segir almennt ekki erfitt að fá starfsfólk í þessi verkefni og að þeir eigi lista yfir þá sem þeir telji frambærilega og áhugasama. Bendir hann á að samfélagið hér á landi yfir færa jöklaakstursmenn sé ekkert voðalega stórt og því spyrjist orðsporið fljótt út. Hann segir mikilvægustu hæfileika fólks í þessum aðstæðum vera gott geðslag og þolinmæði, auk þess að vera góðir öku- og viðgerðarmenn. Það geti til dæmis verið töluvert lýjandi að keyra á 20-25 kílómetra hraða þegar næsti punktur í GPS tækinu sé í 800 kílómetra fjarlægð.

Þegar komið er á Suðurskautslandið verða allar vegalendir stjarnfræðilegar að sögn Guðmunds, en hann bendir á að fyrir tveimur árum hafi hann farið í ferð sem stóð yfir í þrjá mánuði og keyrt var yfir 9600 kílómetra. „Það er eins og keyrt sé á hverjum degi yfir Vatnajökul fram og til baka, í þrjá mánuði,“ segir Guðmundur.

Fimm stór verkefni þetta árið

Þetta tímabilið eru helstu verkefni Arctic Trucks fimm talsins, en nú þegar er hafinn leiðangur stelpu einnar sem ætlar að verða fyrsti einstaklingur heimst til að hjóla á Suðurpólinn. Mun einn bíll frá fyrirtækinu fylgja henni eftir og veita aðstoð.

Umfangsmesta verkefnið er svo í kringum skíðagöngu særðra hermanna, en þrjú lið frá breska samveldinu munu þar keppast um að vera fyrst til að ganga 335 kílómetra á pólinn. Hvert lið hefur einn frægan einstakling innanborðs og hefur það vakið heimsathygli að Harry Bretaprins gangi með liði bresku hermannanna.

Eftir eina viku hefst svo leiðangur Parker Liautaud, 19 ára bandarísks stráks sem hefur hingað til farið í þrjár ferðir á norðurpólinn og ætlar sér að setja met með að vera fljótasti einstaklingur heims til að ganga á pólinn. Stefnir hann á að vera 22 daga á göngu, en fyrra metið er 23 dagar. Liautaud þessi hefur síðustu árum rannsakað veðurfarsbreytingar, en hann hóf nám í Yale háskólanum aðeins 15 ára gamall.

Lengsti leiðangurinn þetta árið verður einnig sá stysti að sögn Guðmundar, en tveir áhugamenn um Land Cruiser bíla ætla sér að keyra þvert yfir Suðurskautslandið og til baka. Þrátt fyrir gífurlega vegalengd, eða um 7000 kílómetra, verður þetta væntanlega stysta ferðin í tíma talið. Guðmundur segir að þeir hafi upphaflega heyrt af Arctic Trucks þegar þeir komu til Íslands sem hluti af leiðangri sínum að keyra Land Cruiser í öllum heimsálfum. Þá hafi þeir pantað breytingu á einum bíl til þess að keyra stutt á heimskautinu, en þeim hafi litist svo vel á þá möguleika sem breytingarnar buðu upp á að þeir hafi skipulagt sérstaka ferð á sérútbúnum 6x6 bílum einnig. Verður einn bíllinn á vegum Arctic Trucks, en þessir dellumenn hafi ekki getað setið á sér að kaup einnig eitt stykki sérútbúinn bíl að sögn Guðmundar. Bendir hann á að einn þeirra eigi Land Cruiser safn með yfir 70 bílum og sé eigandi Utah Jazz körfuboltaliðsins.

Að lokum mun fyrirtækið setja upp eldsneytisbirgðastöð á Suðurskautinu, en Guðmundur segir að olíutunnum sé varpað út úr flugvél í fallhlíf. Starfsmenn Arctic Trucks þurfi svo að koma þeim saman og koma upp í einskonar birgðastöð.

Kort sem sýnir staðsetningu Novo stöðvarinnar þar sem Arctic Trucks …
Kort sem sýnir staðsetningu Novo stöðvarinnar þar sem Arctic Trucks er með stærstan hluta starfsemi sinnar. Í ár verður einnig einn bíll á Union Glacier bækistöðinni. Mynd/mbl.is
Bílarnir eru allir 6x6 og geta borið allt að 2,5 …
Bílarnir eru allir 6x6 og geta borið allt að 2,5 tonn aukalega við eigin þyngt. Þá er eldsneytistankur bílanna 650 lítrar.
Bílarnir eru fluttir tveir og tveir í einu með þessum …
Bílarnir eru fluttir tveir og tveir í einu með þessum stóru rússnesku flugvélum, en flugtími frá Höfðaborg er um sex klukkutímar.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK