Leiðbeina flugvél með ruslapokum

Starfsmenn Arctic Trucks hafa keyrt um 2000 kílómetra upp á …
Starfsmenn Arctic Trucks hafa keyrt um 2000 kílómetra upp á hásléttuna síðustu 5 daga, en nú vinna þeir að því að setja upp búðir þar sem keppni Walking with the Wounded mun hefjast.

Starfsmenn jeppabreytingafyrirtækisins Arctic Trucks hafa í nógu að snúast þessa dagana á Suðurskautslandinu, en leiðangur fatlaðra hermanna úr samtökunum Walking With The Wounded er við það að hefjast og í dag var fyrra flugið af tveimur að upphafsstað keppninnar. Fjórir af starfsmönnum fyrirtækisins lögðu af stað frá Novo bækistöðinni fyrir fimm dögum og hafa í dag verið að setja upp aðstöðu við upphafsstað keppninnar, en hann er um 2000 kílómetra frá Novo stöðinni.

Mikil keyrsla var síðustu daga, en meðalhraði bílanna á Suðurskautinu er ekki nema um 25 kílómetrar á klukkustund. Það þýðir að bílarnir keyrðu um 16 klukkustundir á hverjum sólarhring síðustu 5 daga. Guðmundur Guðjónsson, verkefnastjóri Suðurpólsdeildar Arctic Trucks á Íslandi, segir að starfsmennirnir hafi meðal annars sett upp stórt matartjald, klósettaðstöðu og aðstöðu fyrir aðstoðar- og sjúkrafólk sem er hermönnunum fyrrverandi innan handar. Keppendurnir þurfa þó sjálfir að koma upp eigin tjöldum.

Setja upp flugbraut með ruslapokum

Í dag klukkan 14:00 lagði flugvél af stað frá Novo stöðinni með fyrri hópinn, en í honum eru 12 manns. Á morgun verður svo seinna flugið farið, en daginn eftir á keppnin svo að hefjast. Guðmundur segir að flugvélin sé útbúin með skíði til að lenda á, en starfsmennirnir sem eru komnir á staðinn voru í óðaönn í dag að setja upp flugbraut. Notuðust þeir við svarta ruslapoka, sem þeir settu með 250 metra millibili, til að skapa andstæður í landslaginu sem auðvelda flugmönnunum að lenda. Flugferðin sjálf tekur tæplega 11 klukkustundir, sem sýnir um hversu gífurlegar vegalendir er að ræða á Suðurskautinu.

Bilanir hluti af ferðunum

Til viðbótar við þá tvo bíla sem eru komnir á staðinn héldu tveir aðrir bílar frá Arctic Trucks af stað áleiðis frá Novo stöðinni fyrir þremur dögum. Guðmundur segir að þeir hafi lent í þó nokkrum vandræðum á leiðinni og þurft að standa í viðgerðum í rúman sólarhring. Það brotnaði demparafesting á öðrum bílnum vegna erfiðra aðstæðna, en Guðmundur segir að á stórum kafla hafi verið um 2 metra háar skaföldur sem erfitt sé að koma bílunum heilum í gegnum. Nú hafa þeir tvo sólarhringa til að keyra rúmlega 1100 kílómetra, en miðað við meðalhraða þýðir það um 22 klukkustunda akstur á sólarhring.

Eins og mbl.is sagði frá í síðustu viku er Arctic Trucks með fimm stór verkefni í gangi á Suðurskautslandinu þetta árið, en meðal þess er að aðstoða við leiðangur Parker Liautaud, 19 ára bandarísks stráks sem ætlar að reyna að slá hraðamet á pólinn. Guðmundur segir að hann hafi verið veðurtepptur í tvo daga í Síle, þaðan sem hann mun fljúga á Suðurskautið. Gerir hann ráð fyrir að leiðangurinn hefjist um helgina.

Harry prins og aðrir sem taka þátt í keppninni, sem …
Harry prins og aðrir sem taka þátt í keppninni, sem skipulögð er fyrir fatlaða fyrrverandi hermenn, munu hefja gönguna á næstu dögum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK