Bannað að spila fótbolta og lærði japönsku

Bolli ásamt félögum sínum á veitingastað í Tókýó.
Bolli ásamt félögum sínum á veitingastað í Tókýó. Mynd/Bolli Thorodssen

Bolli Thoroddsen bjó fyrst í Japan sem skiptinemi árið 1998, og heimsótti landið nær árlega allt til ársins 2008 að hann fór í framhaldsnám í fjármálum til Japans og vann við að aðstoða íslenskt lyfjafyrirtæki að komast á Japansmarkað. Í dag rekur hann, ásamt samstarfsfélaga sínum, ráðgjafafyrirtækið Takanawa og er meðfram því í doktorsnámi við Waseda háskólann í Tókýó. Mbl.is ræddi við Bolla um ástæður þess að hann hélt til Japans, reksturinn og möguleikana ytra.

Þegar Bolli var 14 ára kom hann fyrst til Japans, en það var eftir þriðja bekk í Menntaskólanum í Reykjavík sem hann hélt utan í skiptinám. Dvaldi hann í fylkinu Fukushima hjá stærðfræðikennara og fjölskyldu hans. Þetta er sama svæði og varð hvað verst úti eftir jarðskjálftann og flóðbylgjuna árið 2011 og Bolli segir að hann hafi búið aðeins 50-60 kílómetrum frá kjarnorkuverinu sem skemmdist mikið.

Var bannað að spila fótbolta

Hann segir stærðfræðikennarann hafa verið af gamla skólanum og ekki gefið mikið fyrir að Japansdvölin væri einhver skemmtun. „Mér var bannað allt annað en að læra. Ég æfði fótbolta en hann bannaði mér að vera í fótboltaklúbbnum. Hann sagði að ég væri í Japan til að læra um japanska sögu, menningu og tungumálið,“ segir Bolli. Dvölin vakti þó að hans sögn mikinn áhuga hjá honum á landinu og tungumálakennslan skilaði sér virkilega. „Ég bókstaflega gerði ekkert annað en að læra þessa 10 mánuði. Það var mjög erfitt en vegna þessa komst ég vel inn í samfélagið og náði tökum á tungumálinu,“ segir hann.

Áður en Bolli fór út hafði hann heyrt að margir nemendur ættu það til að gefast upp á námi í Japan. Hann hafi aftur á móti alltaf verið harður á því að ætla að klára dvölina. Hann hafi farið með þá hugsun bak við eyrað að þar sem þriðji bekkur í MR væri erfiður, hlyti hann að geta þetta líka. Eftir á hafi hann svo séð að námið í Japan var „alvöru áskorun,“ sem þó tókst á endanum. Hann segist enn halda sambandi við fjölskylduna, sem hann telji jafnvel sem sína aðra fjölskyldu í dag.

Aðstoðaði að koma Actavis á Japansmarkað

Eftir að hafa klárað Bs. í iðnaðarverkfræði við Háskóla Íslands fór hann aftur út til Japans í nám og vann samhliða því við að aðstoða Actavis að komast inn á Japansmarkað, en fyrirtækið hefur í dag náð þar fótfestu. Bolli segir að japanski lyfjamarkaðurinn sé einn lokaðasti markaður í heimi, en jafnframt næst stærsti. lyfjamarkaður á eftir Bandaríkjunum. 

Til að ná þessum árangri segir Bolli að þeir hafi byggt upp tengsl við fyrirtæki sem er m.a. í eigu eins stærsta lyfjafyrirtæki Japans. „Okkur tókst að skapa góð tengsl við aðila í Japan sem gaf okkur þá stöðu að geta farið að vinna sem ráðgjafar fyrir ýmiss önnur fyrirtæki,“ segir Bolli.

Stofnuðu eigið ráðgjafafyrirtæki í Japan

Árið 2011 tók hann svo þá ákvörðun að stofna fyrirtækið Takanawa ásamt dr. Eyþóri Eyjólfssyni, sem áður hafði stofnað Verslunarráð Íslands í Tókýó árið 2003, með þáverandi forsætisráðherra Davíð Oddssyni. Hjá Takanawa er megináherslan lögð á vinnu með og fyrir lyfjafyrirtæki. Þá hefur félagið einnig komið að verkefnum í sjávarútvegi og á sviði endurnýjanlegrar orku. Í dag starfa 10 manns með fyrirtækinu, en Bolli segir þá þó ekki alla vera í fullu starfi, heldur komi að einstökum verkefnum eftir því sem þau komi upp.

Meðal starfsmanna eru fyrrverandi sérfræðingar hjá stórum iðnfyrirtækjum eins og Mitsubishi Heavy Industries og menn úr framkvæmdastjórnum lyfjafyrirtækjanna Sanofi og Astellas, en þau eru tvö af stærri lyfjafyrirtækjum heims. Bolli segir að allir starfsmennirnir séu með langa starfsreynslu, allt að 47 ár í lyfjageiranum sem dæmi, og að það sé lærdómsríkt fyrir hann að  vinna með þeim. „Þrátt fyrir að ég sé annar eigandi fyrirtækisins er ég langyngstur en nýt þess heiðurs að vinna með þessum reynsluboltum.“

Bæði íslensk og alþjóðleg fyrirtæki í viðskiptum

Takanawa hefur tekið að sér mörg verkefni fyrir íslensk fyrirtæki, en hann segir að þrátt fyrir það séu alþjóðleg fyrirtæki stærstu viðskiptavinirnir. Þannig hafi fyrirtækið mikið unnið að því að skoða fjárfestingakosti fyrir erlend fyrirtæki í Japan og fyrir japönsk fyrirtæki erlendis.

Bolli segir að Japan bjóði einnig upp á önnur tækifæri fyrir fyrirtæki eins og hann reki. Meðal annars séu margir öflugir þróunarbankar í landinu og að mikil ásókn sé í að fá fjármagn frá þeim. Þannig hafi Takanawa fengið töluvert af verkefnum við að aðstoða fyrirtæki við að sækja fjármögnun til bankanna, en í mörgum tilfellum gefst fyrirtækjum kostur á að fá lán frá japönskum bönkum ef þau kaupa japanskan tæknibúnað og þekkingu.

Tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki í Japan

Þegar horft er til umfangs og tækifæra íslenskra fyrirtæka í Japan segir Bolli að auðvitað sé sjávarútvegurinn þar fyrirferðamestur. Aftur á móti hafi margar aðrar dyr opnast og þannig sé til dæmis sprotafyrirtækið Cooori að ná góðum árangri í Japan með tungumálaforrit sem meðal annars aðstoðar útlendinga við að læra japönsku og Japani við að læra ensku. Í jarðvarmageiranum séu einnig tækifæri, en hann bendir á að Japan búi yfir þriðja mesta jarðvarmaforða heims og margir af stærstu framleiðendum véla fyrir jarðvarmavirkjanir eru staðsettir í landinu. Þetta skapar tækifæri bæði fyrir íslensk fyrirtæki til að miðla þekkingu og selja þjónustu í Japan, en einnig að selja japanska þekkingu erlendis.

Bolli segir þó að það verkefni sem hann er hvaða stoltastur af sé ekki viðskipta tengt heldur samfélagsverkefni. Takanawa skipulagði í fyrra fræðslu- og minningasýningu um kjarnorkuárásirnar skelfilegu á Hírósíma og Nagasaki í samstarfi við japönsk og íslensk stjórnvöld, Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur við Háskóla Íslands og minningasafn um kjarnorkuárásirnar í Nagasaki. Sýning stóð í þrjá mánuði og var haldin í samstarfi við og í Borgarbókasafni Reykjavíkur, Háskóla Íslands, Hofi Akureyri og Duushúsi Reykjanesbæ. Um 11.200 gestir heimsóttu sýninguna. Þar á meðal mikill fjöldi grunnskóla- og framhaldsskólanema sem unnu verkefni í tengslum við sýninguna.

Íslendingar horfa framhjá Japan

Þegar talið berst að samskiptum Japans og Íslands segir Bolli að almennt horfi fólk á Íslandi mikið til framhjá þeim og geri sér ekki grein fyrir umfangi þeirra og samskiptum. Þannig bendir hann á að utan Evrópu og Bandaríkjanna, þá sé Japan stærsta viðskiptaland Íslands. Bolli segir að mikið sé selt út af fisk, en á móti kaupi Íslendingar m.a. snyrtivörur, fatnað, bíla og raftæki.

Þá segir hann að japönsk stjórnvöld veiti árlega fjölmarga styrki til handa íslenskum nemendum og listafólki. Japanskir ferðamenn ferðist einnig í auknum mæli til Íslands og hafi síðustu ár fjölgað um 15% árlega. Hann segir þá sérstaklega dýrmæta þar sem þeir komi mikið utan háannatíma, t.d. á veturna.

Japan var fyrsta ríkið innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til að styðja Ísland eftir fjármálahrunið 2008. Bolli segir að oft sé litið framhjá þessu þegar rætt er um samskipti þjóðanna. „Mér finnst íslenskir ráðamenn ekki gera sér sér grein fyrir þessu. Þeir leggja of mikla áherslu á aðrar Asíuþjóðir meðan Japan hefur reynst okkur betur en flestar þeirra.“ Þá segir hann að auðvelt sé að eiga samskipti við Japani og gott sé að treysta þeim. Samningar taki reyndar langan tíma, en þegar þeir eru frágengnir þá standi menn við sitt.

Háskólanám í hjáverkum

Bolli hefur þó ekki setið auðum höndum meðfram því að byggja upp fyrirtækið. Hann lauk  mastersnámi í fjármálum við Waseda háskólann í Tókýó 2011 og hefur nú hafið þar doktorsnám. Hann segir reyndar í gamansömum tón að hann viti ekki alveg enn hvenær því doktorsnámi ljúki og því sé best að hafa um það sem fæst orð. Að lokum var Bolli á föstudaginn kjörinn formaður Verslunarráðs Íslands í Japan. Með honum var kjörinn varaformaður Árni G. Hauksson sem hefur starfað sem framkvæmdastjóri hjá Goldman Sachs í New York og TókýóSvo það er greinilega í nógu að snúast hjá honum.

Bolli ásamt stærðfræðikennaranum Toyota, skiptinemaföður Bolla í Fukushima.
Bolli ásamt stærðfræðikennaranum Toyota, skiptinemaföður Bolla í Fukushima. Mynd/Bolli Thorodssen
Bolli Thoroddsen, stofnaði sitt eigið fyrirtæki í Japan ásamt dr. …
Bolli Thoroddsen, stofnaði sitt eigið fyrirtæki í Japan ásamt dr. Eyþóri Eyjólfssyni. Auk þess er hann í doktorsnámi og er nýtekinn við Verslunarráði
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka