Harry Bretaprins gekk mjög vel

Ganga særðu hermannanna hefur tekið rúman hálfan mánuð. Meðal þeirra …
Ganga særðu hermannanna hefur tekið rúman hálfan mánuð. Meðal þeirra sem gengu var Harry Bretaprins. AFP

Aðstæður gerðu það að verkum að það reyndist erfiðara en áætlað hafði verið að klára gönguna á pólinn og því voru gerðar nokkrar breytingar sem urðu til þess að hópurinn gat allur komið saman á pólinn í dag. Þetta segir Emil Grímsson leiðangurstjóri og stjórnarformaður Arctic Trucks í samtali við mbl.is, en leiðangur særðra hermanna komst á suðurpólinn rétt fyrir hádegisbil að íslenskum tíma í dag. Leiðangur þeirra hefur tekið rúman hálfan mánuð, en hópurinn kom á Suðurskautslandið 22. nóvember síðastliðinn.

Breytingar gerðar á leiðangrinum

Íslendingar spiluðu veigamikið hlutverk í þessu verkefni, en Arctic Trucks sá um alla aðstoð í kringum ferðina, sjúkrateymi og annað tilfallandi. Emil segir að upphaflega hafi verið horft til þess að gengnir yrðu 333 kílómetrar og átti að vera keppni milli þriggja liða. Lendingarskilyrði hafi aftur á móti orðið til þess að byrja þurfi 20-30 kílómetrum lengra frá pólnum. Áætlunin breyttist svo enn frekar þegar færðin reyndist nokkrum af særðu hermönnunum of erfið, en þá var ákveðið að breyta ferðinni þannig að allur hópurinn myndi ferðast saman.

Emil segir að mikið hafi verið um stóra skafskafla sem hafi erfiðað mönnum. Fyrst hafi verið gert ráð fyrir 22-24 kílómetra göngu á dag, en þegar fyrirséð var að það myndi ekki nást hafi gangan verið stytt um 55 kílómetra og aftur um 80 kílómetra. Samtals hafi hóparnir því gengið rúmlega 200 kílómetra.

Allir mjög ánægðir

„Þetta hefur verið svolítið erfitt, en allir eru ánægðir,“ segir Emil, en hópurinn hefur eytt síðustu klukkustundum í allskonar myndatökur og að njóta þess að vera á pólnum. Harry Bretaprins er meðal leiðangursmanna, en hann er fyrsti meðlimur konungsfjölskyldunnar sem stígur fæti á suðurpólinn.

Í upphafi leiðangursins þurfi að seinka brottförinni, en veður olli því að ekki var hægt að fljúga strax til Suðurskautsins. Meðlimir hópsins komu því 10 dögum seinna á Suðurskautið en upphaflega var áætlað. Það olli því að mun minni tími gafst til æfinga, segir Emil.

Harry gekk mjög vel

Auk Harry Bretaprins voru það leikararnir Alex Skarsgård og Dominic West sem tóku þátt í leiðangrinum sem heiðursgestir, en Emil segir að þeir hafi að mestu staðið sig vel. Tók hann sérstaklega fram að Harry hafi gengið mjög vel og þá hafi Skarsgård sýnt mikla þolinmæði og aðstoðað einn hermannanna, sem er blindur, gífurlega mikið. 

Á næstu dögum verður svo hópurinn sóttur í búðir sem eru um 20 kílómetra frá pólnum, en Emil segir að með vélinni sem sæki hermennina muni koma stúlka sem ætli að reyna við að hjóla 600 kílómetra frá Ross íshellunni á pólinn. Mun það vera í fyrsta skipti sem einhver hjólar á pólinn. Emil gerir ráð fyrir að Arctic Trucks hópurinn fljúgi svo aftur heim 13. janúar næstkomandi, en þá fer Suðurskautavertíðin þetta árið að ljúka.

Starfsmenn Arctic Trucks hafa fylgt hópnum eftir og stutt við …
Starfsmenn Arctic Trucks hafa fylgt hópnum eftir og stutt við göngumenn.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK