Mikil viðbrögð hafa verið við landssöfnuninni Græn framtíð farsíma, sem stendur nú yfir. Fjölmargir hafa tekið þátt og komið gömlum og ónýtum farsímum, sem áður söfnuðu ryki í skúffum og hirslum á heimilum, á söfnunarstaði.
Söfnunarpokar voru sendir inn á öll heimili landsins á dögunum og var fólk hvatt til að finna gamla farsíma, setja í poka og skila þeim til Símans eða Póstsins, segir í fréttatilkynningu. Á pokanum má merkja við góðgerðarfélag sem fólk vill styrkja og allur ágóði rennur óskiptur til þess félags sem fólk kýs.
Bjartmar Alexandersson, framkvæmdastjóri Grænnar framtíðar, sem stendur fyrir söfnuninni ásamt Símanum og Póstinum, segir í fréttatilkynningu að verkefnið hafi gengið vonum framar og fjöldi hafi svarað kallinu; einhver þúsund tæki muni safnast áður en yfir lýkur. „Hér á landi eru seldir rúmlega 130 þúsund farsímar á ári og einungis lítill hluti þeirra er endurunninn.“
Bjartmar segir að þetta sé þróun sem þurfi að breyta því stöðugt sé gengið á afurðir jarðar. „Við viljum því hvetja fólk til að leggja þessu mikilvæga málefni lið og gramsa í gömlu skúffunni; leita í geymslunni eða á vinnustaðnum eftir gömlum og jafnvel ónýtum farsímum.“
Átakið stendur til mánudagsins 16. desember.
Nánar á átakið á vef átaksins: www.siminn.is/graenframtid/