Árið 2014 verður hugbúnaðarfyrirtækið Dohop 10 ára, en það hefur gegnum árin þróað samnefnda flugleitarvél. Leitarvélin tekur við milljónum leita á hverju ári, en á síðustu árum hefur vöxturinn verið 15-30% árlega. Kristján Guðni Bjarnason, framkvæmdastjóri félagsins, segir í viðtali við mbl.is að erlendir fjárfestar hafi sýnt Dohop áhuga, en hann telji fyrirtækið þó enn of lítið til þess að erlendir fagfjárfestar komi til sögunnar. Kristján gerir árið upp í viðtalinu, ræðir framtíðarhorfurnar og stöðuna á vinnumarkaðinum hér heima.
Kristján segir að undanfarin ár hafi verið góð fyrir ferðaþjónustu á netinu og þar hafi flugleitarvélar ekki verið nein undantekning. Á árinu sem er að líða voru gerðar um 8 milljónir leita á vefsvæði Dohop og segir Kristján að mest aukning hafi komið frá Íslandi, en einnig hafi ýmis nýmarkaðsríki verið áberandi. Sá markaður sem stækkaði hvað mest á árinu, samkvæmt Kristjáni, voru Miðausturlöndin. Þá hefur verið stöðug 15% aukning í leitum frá Bandaríkjunum, Noregi, Svíþjóð og Bretlandi, en það eru helstu markaðir leitarvélarinnar, fyrir utan Ísland.
Á næsta ári segir hann að farið verði út í að ráða markaðsfólk frálöndumeins og Sádí-Arabíu,Póllandi, Króatíu og Rússlandi. Hann vonast til að geta fengið fólk með reynslu af þeim mörkuðum sem eru tilbúin að taka þátt í uppbyggingu þar. Segir að sérþekking á þessum mörkuðum skipti miklu máli og því verði sérstaklega horft til að ráða fólk frá þessum löndum.
Þegar hann er spurður út í hvað standi upp úr á þessu ári segir Kristján að áhugi fagfjárfesta sé þar ofarlega. „Fyrirtæki eins og okkar hafa verið að fá meiri athygli á þessu ári frá fagaðilum.“ Segir hann að fjárfestar séu í auknum mæli að koma inn í þennan geira með hugmyndir og tengslanet sem hægt sé að nota til að byggja upp fyrirtækin. Þá séu samkeppnisaðilar einnig að taka yfir önnur félög og það skapi góðan möguleika á útgöngu fyrir fjárfesta og stofnendur. Að sögn Kristjáns hafa flugfélög og ferðaskrifstofur einnig sýnt flugleitarvélum aukinn áhuga, en það helgast af því að fyrirtækin vilji frekar fá viðskiptavini inn á sínar eigin síður og sjái leitarvélarnar sem góðan fyrsta snertipunkt sem beini kúnnahópnum áfram.
Þrátt fyrir mikla aukningu í notkun Íslendinga á leitarvélinni segir hann að fæstir erlendir viðskiptavinir nýti hana til að leita að flugum til Íslands. Þannig hafi aðeins um 5% af leitarniðurstöðum endað á Íslandi. Þetta sé þrátt fyrir mikinn uppgang í ferðaþjónustu hér á landi og segir Kristján að mögulega sé þarna að finna tækifæri fyrir ferðaþjónustuna.
Eins og fyrr segir verður Dohop 10 ára á næsta ári. Þegar Kristján er spurður út í hvað fyrirtækið muni einbeita sér að á árinu, segir hann að áframhaldandi þróun verði forgangsmál. Það sem skipti mestu máli á þessum markaði, að hans sögn, er að skapa sér sérstöðu. Þannig hafi Dohop meðal annars verið mjög framarlega í að finna flugleiðir þar sem flugum hjá mismunandi félögum sé blandað saman til að finna hagstæðasta kostinn.
Mörg íslensk hugbúnaðar- og tæknifyrirtæki hafa verið dugleg að sækja í fjárfestingu síðustu ár og aðspurður hvort að tíunda starfsárið verði nýtt í leit að fjármagni segir Kristján að Dohop hafi ekki verið í slíkri leit, en það geti breyst á næsta ári. Hann nefnir að nokkrir erlendir fjárfestar hafi verið í sambandi við hann, en að þeir hafi þó flestir talið fyrirtækið enn of lítið til að koma með fagfjárfestingu inn í það. „Annaðhvort finnum við einhvern erlendan fagfjárfesti sem vill koma inn í fyrirtækið og vinna með okkur eða þá að við náum stökki með íslensku fjármagni til að gera okkur stærri og þá væri hægt að taka ennþá stærri skref í næstu atrennu,“ segir Kristján, en fyrirtækið er með tíu starfsmenn og veltir um 150 milljónum á ári, þar af 95% í formi erlendra tekna.
Þegar Kristján er spurður út í hugbúnaðargeirann hér á landi og framtíðarmöguleika hans segir Kristján að staðan í dag sé ekki nógu góð þar sem skortur sé á starfsfólki. „Ef okkar draumar rætast erum við fljótt komnir upp í 100-200 starfsmenn, bæði tæknimenn og markaðsfólk. Það þarf ekki mörg slík fyrirtæki og þá er markaðurinn tómur. Það er ekki til slíkt fólk.“segir Kristján.
Hann segir fjárfesta oft spyrja hvort Ísland myndi ráða við stækkun fyrirtækja í þessum geira og að sú lausn sem flestir aðhyllist sé að opna skrifstofu erlendis eða hreinlega færa allan reksturinn út.
Kristján segir að atvinnulífið þurfi ekki síst að taka sig á til að halda í hæfileikaríkt fólk hér á landi. Þannig þurfi þau að fjárfesta mun betur í framtíðinni en nú sé gert, t.d. með að vera duglegra við að ráða ungt fólk sem er í námi til sumarstarfa. „Það þarf að ráða það til sín á sumrin,þjálfa það upp og gefa svörun á því hvað fólk ætti að einbeita sér að í náminu. Stúdendar geta einnig komið með nýja og áhugaverð sýn verkefni sín og annarra.,“ segir Kristján, en með þessari aðferð segir hann að Dohop hafi náð að halda í mikið af starfsfólki eftir að það kom úr námi.