Athuganir Íslenska sjávarklasans hafa leitt í ljós að Íslendingar starfrækja víðfeðmara flutninganet á norðurslóðum en nokkur önnur þjóð. Ísland er raunar eina landið í heiminum sem býður upp á reglubundna flutninga til allra landa sem teljast til norðurslóða. Eru vísbendingar um að innan stórs hluta íslenskra útflutningsfyrirtækja sé stefnan sett á aukin viðskipti á Grænlandi.
Í nýrri greiningu Íslenska sjávarklasans segir að í ljósi þessa hljóti það að vera forgangsverkefni að gera fríverslunarsamning á milli Íslands og Grænlands.
„Icelandair starfrækir reglubundin flug til Anchorage í Alaska, Kanada, Rússlands, Noregs, Finnlands og Svíþjóðar og Flugfélag Íslands og Norlandair starfrækja flug til ýmissa staða í Grænlandi. Þá siglir Eimskip til Norður-Noregs, Svíþjóðar og Samskip til Svíþjóðar. Eimskip er svo umboðsmaður Royal Arctic Line í flutningum til Grænlands auk þess sem íslensku skipafélögin koma að beinum flutningum til og frá Rússlandi,“ segir í greiningunni.
Svo umfangsmikið flutninganet sé langt frá því sjálfgefið í landi á stærð við Ísland. Vafalaust sé hægt að byggja á því þegar rætt er um að nýta ný tækifæri á norðurslóðum.
Í greiningunni kemur fram að í dag séu nokkrir samningar í gildi milli Íslands og Grænlands sem ætlað er að draga úr viðskiptahindrunum milli landanna. Þó sé ekki í gildi fríverslunarsamningur milli þjóðanna þrátt fyrir að Ísland hafi verið virkt í gerð þeirra og komið sér upp þéttu neti samninga í samanburði við mörg önnur lönd. Ljóst sé að Grænlendingar hafi takmarkaðar heimildir til þess að gera þjóðréttarsamninga og að meginstefnu þurfi heimild eða beina aðkomu danskra stjórnvalda að samningsgerðinni.
„Ætli Íslendingar og Grænlendingar að eiga farsælt samstarf í aukinni uppbyggingu þar í landi er mikilvægt að íslensk stjórnvöld beiti sér fyrir því að undirrita fríverslunarsamning við Grænlendinga,“ segir jafnframt í greiningunni.