Fasteignaverð mun halda áfram að hækka á næstu tveimur árum með nafnhækkun upp á 7-8% á ári. Verðþrýstingurinn verður sérstaklega mikill á minni íbúðir og þær sem eru miðsvæðis. Þetta segir Regína Bjarnadóttir, forstöðumaður greiningardeildar Arion banka, en hún fer yfir árið og framtíðarhorfur í viðtali við mbl.is. Regína segir að á sama tíma muni gjaldeyrishöftin áfram leiða til þess að hlutabréfaverð hækki hér á landi. Það sem kom mest á óvart á árinu sem er að líða var hækkun á hagvaxtatölum á seinni hluta ársins, en hún segist enn gera ráð fyrir að álverð verði meðal helstu áhættuþátta á komandi árum.
Hagvöxtur á öðrum og þriðja ársfjórðungi var að sögn Regínu það sem kom henni mest á óvart á árinu, en hann var mun betri en gert hafði verið ráð fyrir. Hún segir þetta hafa komið flestum á óvart, en vöxturinn var leiddur áfram af útflutningstekjum og útfluttri þjónustu. Nefnir hún sérstaklega að þetta hafi verið enn eitt metárið í ferðamannaþjónustu. Þá segir hún einnig að jákvæð merki séu byrjuð að berast úr fjárfestingum. Þannig sé grunnfjárfesting aftur farin að vaxa eftir að hafa verið í lægð frá hruninu. „Það eru margir jákvæðir póstar,“ segir Regína og bendir á að samkvæmt könnunum sem hafi verið gerðar á árinu sé fjárfestingavilji fyrirtækja að aukast töluvert.
Horft fram á næst ár segir hún að helsti áhættuþátturinn sé verðbólguþrýstingur og meðal annars eigi eftir að koma í ljós hvort forsendur ríkisstjórnarinnar varðandi skuldaleiðréttingu muni ganga eftir eða hvort verðbólga muni aukast vegna aðgerðanna. Aftur á móti telur Regína að nýjasta útspil Seðlabankans með félagið Eignasafn Seðlabanka Íslands geti slegið á þennan þrýsting með því að minnka peningamagn í umferð og leiða til lækkunar á vöxtum.
Heilt á litið segir hún að spáin fyrir næsta ár sé nokkuð björt. „Mér sýnist að við séum að fara að horfa fram á áframhaldandi efnahagsbata og að fasteignamarkaðurinn muni vaxa áfram,“ segir Regína og bætir við: „Ferðaþjónustan mun halda áfram að vaxa og fjárfesting mun rísa upp úr þeirri lægð sem hún er í.“ Hlutabréfamarkaðurinn mun að öllum líkindum halda áfram að vaxa og stækka á árinu, en Regína segir að meðan höftin séu við lýði verði það væntanlega niðurstaðan. „Meðan við erum enn í höftum og fjárfestingakostirnir eru ekki að aukast það mikið þá mun áfram vera skrið á hlutabréfamarkaðinum,“ segir hún.
„Húsnæðismarkaðurinn mun alveg tvímælalaust hækka. Samhliða efnahagsbatanum teljum við að það sé innistæða fyrir áframhaldandi verðhækkunum og að húsnæðismarkaðurinn sé ekki of hátt verðlagður í dag,“ segir Regína og bendir á aukningu kaupmáttar og lýðfræðilega þróun því til stuðnings. Hún segir að á næstu árum muni stórir árgangar koma á markaðinn og það mun leiða til árlegrar 7-8% nafnhækkun fasteigna næstu árin. Regína segir mesta þungann í hækkunum vera á næstu tveimur árum, en það komi meðal annars til vegna þess að meiri verðþrýstingur muni ýta verktökum út í framkvæmdir.
Aðspurð hvort tímamörk leiðréttingaaðgerða stjórnvalda muni hafa letjandi áhrif á markaðinn segir Regína að hún geri ekki ráð fyrir að það hafi stórvægileg áhrif. Aðgerðin leyfir fólki ekki að greiða inn á lán sem tekin eru eftir 1. desember á þessu ári, en Regína segir að í staðinn muni fólk í auknum mæli flytja lán á milli við fasteignakaup. Aftur á móti gæti þetta dregið örlítið úr áhuga fyrstu kaupenda, en þeir eru líklegir til að leggja séreignarsparnaðinn til hliðar á svokallaða fasteignareikninga og safna upp fyrir afborguninni.
Ríkisfjármálin eru Regínu ofarlega í huga fyrir komandi ár og segir hún að gífurlega mikilvægt skref hafi verið stigið með að samþykkja hallalaus fjárlög. Það séu þó ennþá nokkrir tekjupóstar sem mikil óvissa ríki um og á þar við bankaskattinn og lengingu í Seðlabankabréfinu. Þá segir Regína einnig að spurningarmerki sé við hvort Íbúðalánasjóður þurfi meiri innspýtingu en áætlað hafi verið.
Þessu til viðbótar segir Regína að nauðsynlegt sé á komandi ári að fá meiri afgang af viðskiptajöfnuði til að geta haft efni á því að lyfta höftunum á næstu árum. Hún segir núverandi stöðu útflutningsgreinanna vera áhyggjuefni í þessu samhengi. „Verð á sjávarafurðum hefur verið að lækka og maður vonar að þeim botni sé náð. Viðskiptakjör Íslands eru sögulega séð mjög lág og þegar litið er á horfurnar fram á við með álverð og fiskverð virðast þær ekki vera að batna og það er mikið áhættuatriði varðandi afléttingu haftanna.“ Hún segir miklar afborganir vera framundan og að ekki sé gert ráð fyrir miklum afgangi. Þá hafi Seðlabankinn spáð því að árið 2015 verði Ísland aftur komið með halla á viðskiptajöfnuði og það sé áhyggjuefni í sjálfu sér.
Álmarkaðurinn hefur verið í mikilli lægð undanfarið og Regína segir ekkert benda til þess að álverð fari að hækka á næstunni. Hún bendir þó á að miðað við útflutningstölur hafi útflutningsverðmæti áls frá Íslandi ekki lækkað jafn mikið og heimsmarkaðsverð. Þetta bendi til þess að samkeppnishæfni fyrirtækjanna hér á landi sé mikið og hafi veitt einhverja mótspyrnu við lækkandi verð. Þrátt fyrir það segir Regína að lágt verð á afurðinni muni koma niður á fjárfestingaáformum eigendanna og segir að líkur á Helguvíkurverkefninu hafi minnkað á síðasta ári.