Míla áformar að tvöfalda hraða á ljósveitukerfi sínu á völdum stöðum á þessu ári. Þá gæti hraði á heimilistengingum náð allt að 100 Mb/s. Þróun á allt að 1 gígabita tengingum er vel á veg komin og má búast við að Míla geti boðið þær á næstu þremur árum. Í fréttatilkynningu kemur fram að Míla mun einnig fjölga þeim heimilum sem hafa aðgang að Ljósveitu um 15% og þá munu um 80% heimila á öllu landinu hafa möguleika á að nálgast háhraðatengingar hjá sínu fjarskiptafyrirtæki, en Ljósveitan er opið aðgangsnet sem öll fjarskiptafyrirtæki á landinu geta haft aðgang að.
Nú í janúar verður lokið við að tengja við Ljósveituna þá fjóra staði sem eftir eru á Vestfjörðum, Patreksfjörð, Tálknafjörð, Bíldudal og Þingeyri. Þá er búið að uppfylla markmið síðasta árs sem var tenging 53 þéttbýlisstaða við Ljósveituna.
Á fyrsta ársfjórðungi 2014 verður hafist handa við uppbyggingu Ljósveitu á Skagaströnd og Akureyri. Einnig er áætlað að setja upp Ljósveitu á Bifröst, á Hvanneyri, Varmahlíð, Hofsósi og Hólum í Hjaltadal og munu íbúar þar hafa möguleika á að nálgast háhraðaþjónustu um Ljósveitu hjá sínum þjónustuaðila í lok mars.
Áætlað er að tengja sex staði í viðbót á öðrum ársfjórðungi; Hólmavík, Laugarás, Sólheima, Aratungu, Laugarvatn og Kirkjubæjarklaustur. í lok júní munu íbúar á þessum stöðum þar með hafa möguleika á að nálgast háhraðaþjónustu um Ljósveitu Mílu hjá sínum þjónustuaðila.
Íbúar á flestum þéttbýlisstöðum landsins eru með venjulega ADSL-tengingu en hraði hennar er að jafnaði 8Mb/s. Með tilkomu Ljósveitunnar fá viðskiptavinir allt að 50Mb/s tengingu sem er mikil bylting í hraða fyrir þá sem nýta sér þjónustu á þessum samböndum.
Ljósveitan er samheiti yfir háhraðasambönd sem fara að mestum eða öllum hluta um ljósleiðara. Á nokkrum stöðum á landinu hefur verið lagður ljósleiðari alla leið inn í hús og er Skagaströnd einn þessara staða.
Míla leggur ljósleiðara í hús í nýjum hverfum sem byggjast upp frá grunni. Míla á og rekur víðtækasta aðgangsnet á landinu og notar yfirleitt hefðbundnar heimtaugar síðasta spölinn. Þannig getur Míla byggt upp háhraðanet hratt og örugglega, og gert íbúum um land allt kleift að nýta háhraðasambönd, sem veitir þeim hraða allt að 50Mb/s. Notandinn fær því háhraðasamband, óháð tækninni sem notuð er til að koma því til hans, segir í fréttatilkynningunni.