Í dag var forsvarsmönnum Eykon, kínverska orkufyrirtækisins CNOOC og norska olíufélagsins Petoro afhent síðasta leyfið í annarri úthlutun olíuleyfa á Drekasvæðinu. Heiðar Már Guðjónsson, einn eigenda Eykon, segir að samstarfið við kínverska fyrirtækið tryggja metnaðarfullar rannsóknir og sterkan bakhjarl þegar kemur að borunum.
CNOOC er eitt af hundrað stærstu fyrirtækjum í heimi og er stórt í olíuheiminum. Heiðar segir þetta vera gott skref fyrir olíuleit hér við land þar sem aðkoma stórs fyrirtækis auki rannsóknir til muna. „Nú eru tvö af þremur leyfum hjá Eykon og við erum sérstaklega ánægðir með að fá þetta sterka alþjóðlega fyrirtæki með okkur,“ segir Heiðar.
Næstu fjögur til átta ár munu fara í rannsóknir, en Heiðar segir að því loknu verði vonandi hægt að fara í boranir. Hver hola er þó mjög dýr, eða sem nemur 150-200 milljónum Bandaríkjadala. Það eru um 23 milljarðar íslenskra króna, en Heiðar bendir á að það sé ríflega ein Harpa. Stærð fyrirtækisins geri þessa fjárfestingu aftur á móti mögulega. „CNOOC borar í dag um 50 holur á ári, eða eina á viku. Það þarf svona stórt fyrirtæki til að fara inn á ný svæði,“ segir hann.
Nokkur stór alþjóðleg fyrirtæki sýndu áhuga á að koma inn í þetta samstarf að sögn Heiðars, en hann segir að CNOOC hafi verið valið þar sem það hafi verið tilbúið í að setja mestu peningana í rannsóknir. Hann segir rannsóknarstigið vera að fullu fjármagnað, en að því loknu taka við boranir. Hann segir líkurnar á að finna eitthvað með borunum vera 30-50%, en það fari mikið eftir gæðum rannsóknanna. Því hafi áætlun CNOOC hljómað vel í þeirra eyrum.
Athygli vakti að kínverskt og norskt fyrirtæki hafi tekið höndum saman í þessu verkefni, en samskipti ríkjanna hafa verið í frosti síðan norska Nóbelsverðlaunanefndin veitti kínverska andófsmanninum Liu Xiaobo friðarverðlaun Nóbels. Heiðar segir mjög jákvætt að þessi tvö ríki hafi ákveðið að hefja samstarf hér á landi, sérstaklega í ljósi þess að CNOOC hefur nú starfsemi í fyrsta skipti í norðanverðu Atlantshafi. „Þetta er þeirra fyrsta skref inn á Norður-Atlantshafið, en í fyrra keypti félagið eitt stærsta olíuleitarfélag Kanada sem hefur mikla reynslu af leit á Atlantshafi,“ segir Heiðar.
Eykon er 15% hluthafi í verkefninu, Petoro 25% hluthafi og CNOOC er með 60% hlut.