„Nánast takmarkalaus markaður“

Skrifað var undir fjárfestingarsamning upp á 2 milljarða króna vegna örþörungaverksmiðju Algalífs á Ásbrú en 30 störf munu skapast í tengslum við starfsemina. Stefnt er á að hefja framleiðslu á þessu ári en mikil eftirspurn er eftir andoxunarefni sem unnið er úr örþörungum og notað m.a. í vítamín og fæðubótarefni.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, og Skarphéðinn Orri Björnsson, framkvæmdastjóri líftæknifyrirtækisins Algalífs, skrifuðu undir samninginn en fyrirtækið var stofnað í ágúst 2012 og er í eigu norska félagsins NutraQ A/S.

Skarphéðinn Orri er bjartsýnn á að umsvif Algalífs verði mun meiri þar sem hægt væri að framleiða 30-40% meira af efninu Astaxanthin: „Vöxturinn hefur verið síðustu ár 10-20% þannig að þetta virðist vera gríðarlega mikill markaður og í rauninni eru örfá prósent jarðarbúa sem eru að nota efnið í dag þannig að það er nánast takmarkalaus markaður." 

Skilyrði eru sögð sérstaklega hagstæð á  Íslandi til framleiðslu af þessu tagi, nálægð við alþjóðaflugvöll, hreint vatn, örugg afhending orku og hæft starfsfólk voru meðal þeirra þátta sem réðu staðarvalinu.

Algalíf nýtir nú 1.500 m² húsnæði sem þegar er til á Ásbrú, fyrrverandi varnarsvæðinu við Keflavíkurflugvöll, en mun byggja við það um 6.000 m². Gengið hefur verið frá öllum samningum við KADECO, Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf. Samtals verða verksmiðja og rannsóknarstofur á 7.500 m² þegar uppbyggingunni verður lokið.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK