Segir sýndarmiðla vera afkimastarfsemi

Seðlabankinn segir dulmálsgjaldmiðla vera sýndarmiðla þar sem enginn standi á …
Seðlabankinn segir dulmálsgjaldmiðla vera sýndarmiðla þar sem enginn standi á bakvið verðmæti miðlanna.

Ekkert sérstakt starfsleyfi eða eftirlit er með dulmálsgjaldmiðlum eins og Bitcoin eða Auroracoin, sem stefnt er að því að gefa út í næsta mánuði. Þannig eru slíkir miðlar ekki lögeyrir á Íslandi og þar með er engum skylt að taka við honum. Þetta segir Stefán Jóhann Stefánsson, ritstjóri í Seðlabanka Íslands, í samtali við mbl.is. Hann segir að engin trygging sé á bakvið Bitcoin, Auroracoin eða aðra slíka miðla, enda enginn einn eiginlegur útgefandi á bakvið þá. Þá segir Stefán að engin verðmæti séu í slíkum sýndarmiðli í bókhaldslegum skilningi og uppgjörsáhætta því talsverð.

Enginn á bakvið miðilinn

„Við erum meðvitaðir um sýndarmiðlana,“ segir Stefán, en hann telur rangt að tala um rafmiðil eða gjaldmiðil þegar kemur að Bitcoin og Auroracoin. Segir hann að þeir uppfylli ekki skilyrði um gjaldmiðla og þá sé enginn sem standi á bakvið verðmæti miðilsins.

Þegar hann er spurður að því hvort Auroracoin sé löglegur hér á landi í ljósi gjaldeyrishaftanna segir hann að það verði að koma í ljós í hverju tilfelli fyrir sig. Segir hann að í lögum um gjaldeyrismál sé kveðið á um almennar takmarkanir á gjaldeyrisviðskiptum og fjármagnshreyfingum á milli landa. Ekki verði séð að ákvæði laganna sem undanþiggja vöru- og þjónustuviðskipti frá áðurnefndum takmörkunum eigi við um viðskipti með sýndarmiðla eða að aðrar undanþágur frá takmörkunum laganna eigi við um slík viðskipti.

Notkun gæti verið brot á gjaldeyrishöftum

Segir Stefán að það sé mikil óvissa í kringum sýndarmiðla, en að sýndarmiðlar hafi ekki áhrif á fjármálastöðugleika hér á landi. Markaðurinn fyrir sýndarmiðla er ekki stór að mati Stefáns og segir hann viðskiptin bundin við afmarkaðan hóp. „Þetta er afkimastarfsemi sem er viðurkennd innan takmarkaðs hóps,“ segir hann.

Stefán vildi ekki svara því til hvort notkun miðilsins væri lögleg með því að vera eingöngu í notkun hér á landi og ítrekaði að slíkt yrði að koma í ljós. Hann tekur þó fram að notkun Auroracoin geti brotið gjaldeyrishöftin. Hann vildi ekki svara því til hvort Seðlabankinn muni rannsaka viðskipti með miðilinn sérstaklega, en hann segir Seðlabankann eiga að framfylgja því að farið sé eftir gjaldeyrishöftunum.

Notkun á Auroracoin gæti verið brot á gjaldeyrishöftum.
Notkun á Auroracoin gæti verið brot á gjaldeyrishöftum. mbl.is/Ernir Eyjólfsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK