Neytendasamtökin lýsa undrun sinni á þeirri ákvörðun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að heimila sölu á bjór þar sem meðal hráefna er hvalamjöl sem er allt að fimm ára gamalt. Í frétt á vef samtakanna segir að ákvörðunin hafi tekin eftir að heilbrigðiseftirlit Vesturlands bannaði sölu á bjórnum. Ástæða þess banns var fyrst og fremst rökstudd með því að Hvalur, sem framleiðir þetta mjöl, hefði ekki starfsleyfi fyrir slíkri framleiðslu.
Í frétt samtakanna er rifjað upp að í rökstuðningi ráðherra komi fram að lagagrundvöllur sölubanns hafi verið óljós þegar ákvörðun um frestun réttaráhrifa var tekin. Þessu voru bæði heilbrigðiseftirlit Vesturlands og Matvælastofnun ósammála enda er markaðssetning á matvælum frá þessari mjölvinnslu í andstöðu við lög um matvæli eins og segir í umsögn Matvælastofnunar. „Það er hins vegar ljóst að með ákvörðun ráðherra verður þessi bjór til sölu út það sölutímabil sem framleiðandi hafði ákveðið eða á þorranum. Í umsögn Matvælastofnunar segir einnig að ekkert liggi fyrir í þessu máli sem réttlæti ákvörðun ráðherra,“ segir í fréttinni.
Þá segir: „Markmið matvælalaga er að tryggja eins og kostur er öryggi og hollustu matvæla. Neytendasamtökin árétta það sjónarmið að þegar vafi er á um hvort framleiðsla og dreifing matvæla sé í samræmi við þetta eigi neytendur að njóta vafans en ekki framleiðendur. Það er áhyggjuefni ef ráðherrar taka upp á því að breyta ákvörðunum nánast eftir eigin geðþótta þegar eftirlitsstofnanir sinna skyldum sínum.“