Kínverski milljarðamæringurinn Huang Nubo virðist hættur að hugsa um Ísland og beinir nú sjónum að Noregi. Hann á í viðræðum um kaup á hóteli í Ósló og leitar að öðrum fjárfestingartækifærum þar í landi. Stefnir hann að 100 milljóna Bandaríkjadala, sem svarar til 11,5 milljarða króna, fjárfestingu í Noregi.
Í Business week er fjallað um fjárfestingar Huangs en þar kemur fram að hann hafi ætlað að fjárfesta fyrir 200 milljónir Bandaríkjadala á hálendi Íslands en lög sem banni erlenda fjárfestingu hafi komið í veg fyrir það.
Huang, sem er stjórnarformaður Zhongkun Investment Group, segir í samtali við Business Week að ástæðan fyrir því að hann horfi nú til fjárfestinga í Noregi sé sú að ekkert miði áfram varðandi hugmyndir hans á Íslandi.
„Ferðamannaiðnaðurinn í Noregi er líklega þroskaðri en á Íslandi,“ segir Huang í viðtali við Business Week. Hann segir að áform fyrirtækisins varðandi fjárfestingar á Norðurlöndum hafi ekki breyst. Stefnt sé að því að fjárfesta í einu eða tveimur löndum í fyrstu og í kjölfarið að fjárfesta víðar í Norður-Evrópu.
Huang lagði fyrst fram tilboð sitt á Íslandi árið 2011 sem hluta af fjárfestingarstefnu á Norðurlöndum, samkvæmt Business Week. Þar kemur fram að núverandi ríkisstjórn sé að fara yfir lög varðandi erlenda fjárfestingu sem komu í veg fyrir fjárfestingu Huangs.
Fyrirtæki Huangs stefndi að byggingu á afþreyingarmiðstöð fyrir ferðamenn á Grímsstöðum á Fjöllum.
Hann segir að ríki í Norður-Evrópu séu enn afar íhaldssöm. Þau telji að kínverskir fjárfestar séu nýríkir einstaklingar sem kaupi allt alls staðar. En taki fjárfestingin langan tíma þá gerum við það bara hægt og rólega.
Zhongkun, fyrirtæki Huangs, á meðal annars eignir í Kaliforníu og Tennessee í Bandaríkjunum. Það kemur að endurreisn þorpanna Xidi og Hongcun í nágrenni Huangshan-fjallsins í Anhui-héraði í Kína en þorpin eru á heimsminjaskrá UNESCO.
Huang hefur sett 1,6 milljónir Bandaríkjadala, rúmar 183 milljónir króna, í norskt safn í skiptum fyrir sjö marmarasúlur frá gömlu sumarhöllinni í Peking. Tók það samkvæmt Business Week hálft ár að ná samkomulagi við norska safnið um að fá súlurnar aftur til Kína en safnið þurfti á fjármagni að halda vegna viðhalds.
Súlurnar, sem eru nú í KODE-listasafninu í Bergen, komu til safnsins í gegnum gjöf frá Johan Wilhelm Normann Munthe sem ánafnaði safninu 2.500 kínverska muni snemma á tuttugustu öld, samkvæmt frétt New York Times hinn 9. febrúar.
Norðmenn munu skila súlunum í september og verða þær settar upp í safni Peking-háskóla þaðan sem Huang útskrifaðist. Huang, sem er í kínverska rithöfundasambandinu, hefur gefið út nokkrar ljóðabækur.
Hann segir í samtali við Business Week að hann hafi fyllst tilfinningasemi þegar sá súlurnar á safninu og sér hafi fundist þær eiga að snúa aftur heim til Kína.