Miklar breytingar eru áætlaðar við Hafnarstræti og Tryggvagötu í Reykjavík á næstunni, en hugmyndir um uppbyggingu á Hafnarstræti 17 og 19 eru langt á veg komnar samkvæmt heimildum mbl.is. Meðal annars er stefnt að því að gera fyrsta straujárnshús landsins á Hafnarstræti 19, en þar er í dag Rammagerðin. Þá verður húsnæðið, þar sem leigubílastöðin City Taxi er til húsa, látið víkja. Það er Skúli Gunnar Sigfússon, oft kenndur við Subway-veitingastaðina, sem er eigandi eignanna í gegnum félögin Sjöstjörnuna, Stjörnuna og Leiti eignarhaldsfélag.
Á útboðsþingi Samtaka iðnaðarins í síðustu viku greindi Dagur B. Eggertsson, formaður borgarstjórnar, frá því að verið væri að vinna að deiliskipulagi fyrir lóðirnar tvær, en hugmyndir í dag kveða á um að við hornhúsið, þar sem Rammagerðin er nú, bætist 817 fermetrar. Dagur sagði á fundinum að þetta yrði fyrsta straujárnshús landsins, en á meðfylgjandi mynd má sjá að núverandi framsetning sækir í smiðju svipaðra húsa t.d. í New York, en þar er hin þekkta Flatiron-bygging.
Við Hafnarstræti 17, þar sem leigubílastöðin er meðal annars til húsa, verður bætt 1.326 fermetrum. Halda á ásýnd Hafnarstrætishluta hússins, en þar hafa áður verið vinsælir skemmtistaðir eins og Kaffi Thomsen og Spotlight. Húsið hýsti áður Thomsen Magasín, en þar voru nýlenduverslanir um þarsíðustu aldamót.
Á næsta reit við, þar sem Bæjarins beztu pylsur eru með söluturn, er svo áætlað að gera huggulegt torg, en gert er ráð fyrir að pylsusalan verði eftir sem áður á sama stað.
Á föstudaginn var tilkynnt að á lóðinni við Tryggvagötu 13 myndi ný sex hæða bygging rísa, en þar verður meðal annars Borgarbókasafnið með aðstöðu.