Helmingur þeirra 600 íbúða sem verða byggðar á Hlíðarenda verður tveggja herbergja og rúmur fimmtungur þriggja herbergja. Stefnt er að því að hefja framkvæmdir í haust, eins og komið hefur fram í fréttaflutningi mbl.is áður. Á kynningu í ráðhúsinu í dag var sagt að áætlað væri að fyrstu íbúarnir myndu geta flutt inn árið 2016, en jarðvegsvinna gæti hafist strax á þessu ári.
Í þeim breytingatillögum á deiluskipulagi svæðisins sem nú er til umfjöllunar hjá borginni er gert ráð fyrir að íbúðum verði fjölgað úr 360 í 600 og dregið úr umfangi atvinnuhúsnæðis á móti. Segir í tilkynningu að fjölgun tveggja og þriggja herbergja íbúða sé ekki síst til að mæta aukinni eftirspurn eftir slíku húsnæði í miðborg Reykjavíkur.
Samhliða uppbyggingunni verður ráðist í breytingar á íþróttasvæði Vals á Hlíðarenda, með tilfærslu á gervigrasvelli, fjölgun æfingavalla og byggingu knatthúss í hálfri stærð.
Frétt mbl.is: Íbúðir á Hlíðarenda gætu orðið 850