Hagnaður vegna framkvæmda við allt að 560 íbúðir á Valssvæðinu við Hlíðarenda mun verða nýttur til að fjármagna nýtt knatthús á svæðinu og greiða niður 3 milljarða skuldir.
Til stendur að hefja framkvæmdir síðar í ár en forsenda framkvæmdanna er að norðaustur-suðvesturbrautin á Reykjavíkurflugvelli verði aflögð. Forsaga framkvæmdanna er sú að árið 1999 er félagið Valsmenn hf. stofnað. Er það í 40% eigu Knattspyrnufélagsins Vals og í 60% eigu ríflega 400 hluthafa sem langflestir tengjast félaginu. Hlíðarendi er erfðafestujörð sem Knattspyrnufélagið Valur keypti árið 1939, en hún var bújörð.
Árið 2002 var gert samkomulag milli Vals og Reykjavíkurborgar um breytta landnýtingu á Hlíðarenda. Skyldi hluti jarðarinnar sem ekki var nýttur beint undir íþróttastarfsemi nýttur til uppbyggingar á atvinnu- og íbúðarhúsnæði og andvirði sölu á því landi renna til uppbyggingar íþróttamannvirkja á Hlíðarenda.
Mannvirkin verða skuldlaus
Að sögn Brynjars Harðarsonar, framkvæmdastjóra Valsmanna hf, rennur allur hagnaður Hlíðarfóts ehf. af verkefninu til uppbyggingar á Hlíðarenda. Þegar Valur gerði samning við Reykjavíkurborg árið 2002 var gerður samningur um breytta landnýtingu. Valsmenn hf. keyptu lóðir eftir að nýtt deiliskipulag hafði tekið gildi og nýtti þá starfandi Byggingarnefnd Reykjavíkurborgar og Knattspyrnufélagsins Vals það fjármagn til framkvæmda við Vodafonehöllina. Valur á nú íþróttamannvirki sín skuldlaus á Hlíðarenda.
Tekjur af fyrirhugaðri uppbyggingu muni fara langleiðina með að greiða fyrir ný íþróttamannvirki á Hlíðarenda. Þegar framkvæmdum ljúki sé stefnt að því að félagið eigi öll mannvirki á svæðinu skuldlaus. Að sögn Brynjar eru væntingar um að hagnaður Hlíðarfóts af framkvæmdunum geti greitt upp skuldir félagsins, auk þess að leggja til fjármagn í nýtt knatthús.
Valsmenn hf. kaupa umrætt byggingarland á Hlíðarenda hinn 11. maí 2005 á 872 milljónir króna af Reykjavíkurborg. Voru þar af um 500 milljónir greiddar við undirritun samningsins, en 372 milljónir voru útistandandi sem skuld við borgina.
Var stærsti hluti greiðslunnar tekin að láni hjá Frjálsa fjárfestingarbankanum. Í kjölfarið var félagið Hlíðarfótur ehf. stofnað árið 2006 til að skilja alla starfsemi Valsmanna hf. frá þessum lóðaréttindum. Við þann aðskilnað færðust allar eignir og skuldir vegna lóðaréttinda í Hlíðarfót ehf. Meðal skulda Hlíðarfótar ehf. eru kr. 737 milljónir við Knattspyrnufélagið Val en til þeirra var stofnað þegar lóða- og byggingarréttindi á Hlíðarenda jukust með auknu byggingarmagni á Hlíðarendareit.
Þau tíðindi urðu næst í félagastofnun Knattspyrnufélagsins Vals að sjálfseignarstofnunin Hlíðarendi SES var stofnuð í september 2013.
Að sögn Brynjars hefur stofnunin þann tilgang að vernda eignir knattspyrnufélagsins og tryggja að þær séu ekki veðsettar, eða á einhvern hátt skuldsettar. Fer stofnunin með hlutafjáreign Knattspyrnufélagsins Vals í Valsmönnum hf.
Fyrirhugað er að stofnunin fari jafnframt með allar fasteignir á Hlíðarenda, þ.m.t. Vodafone-höllina.
Brynjar segir að nokkrum mánuðum eftir að Valsmenn hf. gerðu samning við borgina árið 2005 um uppbyggingu fjölbýlishúsa og atvinnuhúsnæðis á svæðinu hafi borgin óskað eftir því að framkvæmdum skyldi frestað, fyrst um óákveðinn tíma en síðan til júlí 2007. Þegar fresturinn rann út hafi staðan breyst, enda hafi m.a. samkeppni um skipulag Vatnsmýrar þá verið komin af stað og borgin viljað byggja skv. nýju skipulagi. „Samningarnir árið 2006 kváðu á um að ef Valsmenn hf. fengju ekki nýja lóðasamninga í júlí 2007, þá þyrfti einhver að bera fjármagnskostnaðinn, enda höfðum við greitt borginni hálfan milljarð 11. maí 2005. Árið 2007 vorum við komin með tilboð um sölu á landinu þegar öllu var frestað.“
Reykjavíkurborg greiddi því tafabætur frá september 2008 og þar til nýtt deiliskipulag var samþykkt í okt. 2010. Eru bætur vegna þessa bókfærðar á 285 milljónir króna í ársreikningi Hlíðarfótar árið 2012.
Samningar Vals við borgina voru endurnýjaðir árlega á árunum 2006-2009, í takt við breytingar á skipulagi. Hluti af samkomulaginu var skuldbinding Hlíðarfótar um að leggja 737 milljónir til byggingar knatthúss, en við það hvarf stuðningur borgarinnar við húsið, að sögn Brynjars.
Kemur fram í ársreikningi að eignir Hlíðarfótar voru 3,8 milljarðar og voru þar af 2,84 ma. vegna lóðasamninga við borgina. Áðurnefndar tafabætur á hendur borginni að fjárhæð 285 milljónir voru taldar til eigna. Á móti komu skuldir; 737 millj. vegna skuldbindinga við Knattspyrnufélagið Val, 935 millj. vegna skuldar við borgina og 148 millj. vegna tekjuskattsskuldbindingar, og 1.149 millj. skuldir við Dróma, alls 2.969 millj.
Allt frá hruni og fram til maí 2013 reyndu Valsmenn hf. fyrir hönd Hlíðarfótar ehf. að ná samningum við Dróma um skuldbindingar félagsins og voru þeir samningar oft erfiðir.
„Við endurfjármögnuðum Hlíðarfót í maí 2013 og staðgreiddum Dróma. Drómi er farinn út úr okkar bókum um mitt ár 2013 og þá loksins gátum við sest að samningaborðinu við Reykjavíkurborg og samið um uppgjör og greiðslu á okkar skuldbindingum gagnvart borginni,“ segir Brynjar en félagið tók langtímalán hjá Landsbankanum við greiðslu skuldarinnar hjá Dróma.
„Við tökum enga afstöðu til þess hvort flugvöllur eigi að vera í Vatnsmýrinni eða ekki. Aftur á móti erum við með lóðasamninga sem eru algerlega kvaðalausir um það að byggja á þessu svæði. Við ætlum að halda okkar striki og byggja skv. þeim samningum. Við trúum því að það sé stjórnsýsla í þessu landi og gerðir samningar standi. Það er ekkert aftur snúið. Ef svo færi að áformin yrðu stöðvuð, sem ég hef enga trú á, hlýtur sú spurning að vakna hver eigi að borga áfallinn kostnað.
Ef framkvæmdunum yrði slegið á frest gerðist ekki annað en að það safnaðist upp mikill fjármagnskostnaður. Þá hljóta að vakna spurningar um hver ber þann skaða. Við hljótum að horfa til okkar viðsemjenda, þ.e. Reykjavíkurborgar. Þá myndi sjálfsagt Reykjavíkurborg gera kröfu gagnvart ríkinu, enda er borgin búin að semja við ríkið um að ljúka þessu.“
Reisa á allt að 850 íbúðir og stúdentarými og verða um 560 íbúðir á lóðum í eigu Hlíðarfóts. Valur á líka lóðir undir stúdentaíbúðir og stúdentarými.
Fréttir mbl.is:
Áherslan á smærri íbúðir við Hlíðarenda
Íbúðir á Hlíðarenda gætu orðið 850