Tilboð Íslandsbanka um endurfjármögnun lána Hafnarfjarðarbæjar bíður samþykktar bæjarstjórnar eftir að bæjarráð samþykkti tillögu þess eðlis á fundi sínum í morgun. Um er að ræða endurfjármögnun á erlendum lánum hjá FMS, áður Depfa.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ.
Eftir endurfjármögnunina verða allar skuldir sveitarfélagsins í íslenskum krónum. Endurfjármögnunin kemur til með að lækka greiðslubyrði og minnka gjaldeyrisáhættu sveitarfélagsins sem styrkir fjárhagsstöðu þess, segir í tilkynningunni.
Hf. Verðbréf veittu sveitarfélaginu ráðgjöf við endurfjármögnunina.
„Á kjörtímabilinu hefur núverandi meirihluti Vinstri grænna og Samfylkingar unnið að endurskipulagningu á rekstri sveitarfélagsins og hefur sú vinna verið lykillinn að þeirri endurfjármögnun sem nú hefur verið tryggð með lánsloforði Íslandsbanka allt að 13 milljörðum króna,“ er haft eftir Guðrúnu Ágústu Guðmundsdóttur bæjarstjóra í tilkynningu.
Í uppfærðu lánshæfismati Reitunar ehf. sem kynnt var í bæjarráði í morgun kemur eftirfarandi fram:
„Fyrir hefur legið að fjármagna þurfi erlent lán sem er á gjalddaga í lok árs 2015 en nú liggur fyrir staðfest tilboð um endurfjármögnun innanlands. Því er enginn vafi lengur á að Hafnarfjörður geti fjármagnað erlendar skuldir sínar með lánum í íslenskum krónum en það styrkir lánshæfismat bæjarins.“
Hér er nægt að nálgast fundargerð bæjarráðs Hafnarfjarðar frá því í morgun.