Tap CCP á síðasta ári var það fyrsta síðan EVE online-leikurinn kom út árið 2003. Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri félagsins, segir í samtali við mbl.is að tapið tengist ekki beint rekstri félagsins, enda hafi tekjur þess aldrei verið hærri og rekstrarhagnaður varð á árinu. Hins vegar hafi fyrirtækið gert upp fortíðina og afskrifað þróunarkostnað sem hafi verið bókfærður á eignahlið og um sé að ræða eina staka niðurfærslu eftir mjög nákvæma skoðun og áherslubreytingu.
„Við erum að vaxa þegar horft er til EBITDA (rekstrarhagnaðs) og tekna. Það er fyrst og fremst þróunarkostnaðurinn sem er tekinn niður og það kemur niður á lokaniðurstöðunni,“ segir Hilmar. Hann segir að fyrirtækið hafi grandskoðað framtíðarstefnuna og breytt um stefnu varðandi nokkur málefni. Ákveðinn hluti af þróunarvinnu hafi verið partur af fortíðinni og að mikilvægt hafi verið að segja skilið við hann til að stefna inn í framtíðina með þeim ákvörðunum sem því fylgi. Það skýri þá miklu niðurskrift þróunarkostnaðar sem var bókuð, en hún nam 21,5 milljónum Bandaríkjadala á síðasta ári.
Aðspurður hvaða áherslubreytingar eigi sér stað og skýri þessa afskrift segir Hilmar að mjög mikil samkeppni sé á tölvuleikjamarkaðinum og því geti hann ekki tjáð sig nákvæmlega um það hvaða breytingar sé að ræða. „Við erum ekki tilbúin að tala um þessar breytingar fyrr en líður á árið,“ segir hann.
Fyrirtækið hefur vaxið mikið á síðustu árum að sögn Hilmars, en að nú hafi verið kominn tími á að „herða á öllum skrúfum“. Hann segir að leikurinn Valkyrie komi út seinna á árinu, en það verkefni verði smærra í sniðum en svipuð verkefni áður.
Hilmar segir að niðurskriftin núna hafi ekki tengst breytingum á söluvæntingum og ekki leitt til afskriftar á viðskiptavild, enda hafi CCP aldrei bókað hana hátt. „Þetta var stór tiltekt sem var ráðist í núna og þetta var rétti tíminn til að fara í hana,“ segir Hilmar, en hann segist ekki gera ráð fyrir að þurfa að fara í meiri hreingerningar á næstunni. Hann tekur þó fram að í tölvuleikjageiranum sé mikið um strauma og stefnur og því erfitt að spá fram í tímann.
Eins og fyrr segir mun tapið ekki hafa rekstrarleg áhrif á CCP, en Hilmar segir að félagið sé fjárhagslega mjög sterkt og rekstrarreikningurinn sýni fram á það. Meðal annars hafi félagið aldrei áður haft jafnmiklar tekjur, en þær hafa vaxið ár frá ári og Hilmar segir að ekkert bendi til þess að sú stefna taki breytingum á komandi misserum.