Mínútu- og SMS-fjöldi skiptir ekki lengur máli

Síminn og Vodafone bjóða frá og með deginum í dag þrjár nýjar áskriftarleiðir fyrir snjallsíma. Notendur greiða einungis fyrir gagnamagn, það er netnotkun – niðurhal og upphal – en ekki símtöl og SMS innanlands. Ekki skiptir máli hvort hringt er í síma hjá Símanum, Vodafone, Nova eða Tali hér innanlands. Símtölin og SMS-in eru innifalin í nýju áskriftarleiðunum.

Áskriftarleiðirnar hjá Símanum miðast við 500 MB á mánuði sem kosta 5.990 krónur, 1 GB sem kostar 6.990 krónur og 3 GB sem kosta 8.990 krónur. Þessar nýju áskriftarleiðir koma til viðbótar þjónustuleiðum sem Síminn býður nú þegar fyrir farsímanotendur.

Eldri þjónustuleiðir Vodafone munu sömuleiðis standa farsímanotendum áfram til boða en nýjar áskriftarleiðir fyrirtækisins, sem bera nafnið Vodafone RED, eru 500 MB gagnamagn sem kostar 5.990 krónur, 2,5 GB sem kosta 8.990 krónur og 5 GB sem kosta 10.990 krónur. Bæði fyrirtækin munu bjóða upp á sérstaka pakka fyrir fjölskylduna.

Framtíðin í gagnaflutningum

„Með tilkomu snjallsímanna hefur farsímanotkun almennings breyst mikið á fáeinum árum. Fjölbreyttir notkunarmöguleikar snjallsímanna hafa orðið til þess að gagnamagnsnotkun í farsímakerfinu hefur aukist gríðarlega og samhliða hefur þörfin fyrir hindrunarlausan aðgang að internetinu hvar og hvenær sem er aukist til muna. Því hefur um nokkurt skeið blasað við að farsímaþjónusta framtíðarinnar muni fyrst og fremst snúast um gagnaflutninga. Sá tími er ekki kominn, en með þjónustuleiðinni Vodafone RED stígur Vodafone stórt skref í að auðvelda viðskiptavinum umskiptin sem eru framundan og tryggir í leiðinni gagnsæi og fyrirsjáanlegan kostnað,“ segir í tilkynningu frá Vodafone. Ekki náðist í forstjóra fyrirtækisins í gærkvöldi.

Hefðbundnar einingar hverfa sem mælikvarði á kostnað

„Þessar áskriftarleiðir boða nýja tíma í fjarskiptaheiminum. Hefðbundnar vörur eins og mínútur í símtölum og SMS hætta að telja hér innanlands,“ segir Orri Hauksson, forstjóri Símans. „Maður velur sér stærð gagnapakka og borgar fyrir hann fast gjald. Svo sendir þú eins mikið af SMS-um og þú getur og talar eins og þú vilt. Við teljum að þróunin sé í þessa átt. Hefðbundnar einingar í fjarskiptum muni hverfa sem mælikvarðar á kostnað. Í staðinn muni fólk velja sér ákveðna pakka sem innifela þetta allt og borga fyrir það fyrirsjáanlegt gjald.“

Orri segir að lúkningargjöld milli kerfa fjarskiptafyrirtækjanna hafi verið að lækka, þau hafa verið misjöfn á milli kerfa. Því komi einhver breytilegur kostnaður hjá Símanum vegna hringinga viðskiptavina í númer hjá öðrum fyrirtækjum en viðskiptavinirnir eiga ekki að finna fyrir því. Orri segir að fari viðskiptavinir yfir hámark gagnapakkans verði þeim gert viðvart. Greiða þarf sérstaklega fyrir umframgagnamagn.

Snjallsími.
Snjallsími. Morgunblaðið/Ernir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK