Fyrirtækið Skuggi 3 ehf., sem hyggst reisa turnbyggingu á horni Skúlagötu og Frakkastígs, hefur þegar fengið bindandi tilboð í íbúðir í turninum. Þetta kemur fram í Reykjavík vikublaði sem kom út í dag.
Þar segir að í stofngögnum félagsins komi fram að fermetraverðið á íbúðum í turninum sé á bilinu 700 þúsund krónur og ein milljón króna.
Íbúðir í turnunum í Skuggahverfi eru almennt ekki minni en hundrað fermetrar að stærð.
Bygging turnsins hefur verið gagnrýnd, bæði af íbúum í nágrenninu, embættismönnum og fulltrúum Reykjavíkurborgar, þar sem hann muni skyggja á útsýni frá Skólavörðuholti og niður Frakkastíg, til fjalla og sjávar. Skipulagsfulltrúa var falið að „höfða til samvisku verktakans“, segir í frétt Reykjavíkur vikublaðs. Þær umleitanir hafa ekki borið árangur eftir því sem blaðið kemst næst.
Frétt mbl.is: Verstu skipulagsmistök í Reykjavík í áratugi
Frétt mbl.is: Nýbygging skyggir á sjónlínuna