Fóru yfir áhættuskuldbindingu SPRON

Í rannsóknarskýrslunni er sagt frá því að áhættuskuldbinding vegna útlána …
Í rannsóknarskýrslunni er sagt frá því að áhættuskuldbinding vegna útlána til Brautarholts 20 ehf. og tengdra aðila hafi farið fram úr mörkum sem sett eru í lögum. Fjármálaeftirlitinu var ekki tilkynnt um málið.

Í árs­lok 2008 nam heild­ar­skuld­bind­ing Braut­ar­holts 20 ehf. og tengdra aðila við Spari­sjóð Reykja­vík­ur og ná­grenn­is tæp­um 5,4 millj­örðum króna og var áhættu­skuld­bind­ing­in 29,4% af eig­in­fjár­grunni spari­sjóðsins, að frá­dregnu sér­stöku af­skriftafram­lagi og vaxtafryst­ingu. Þrátt fyr­ir það má áhætta vegna tengdra viðskipta­manna ekki fara yfir 25% af eig­in­fjár­grunni sam­kvæmt lög­um um fjár­mála­fyr­ir­tæki. Þetta kem­ur fram í rann­sókn­ar­skýrslu um spari­sjóðina sem kynnt var í dag.

Fjár­mála­eft­ir­litið fékk ekki til­kynn­ingu

Fari áhættu­skuld­bind­ing yfir 25% mörk­in skal það til­kynnt Fjár­mála­eft­ir­lit­inu án taf­ar, en í rann­sókn­ar­skýrsl­unni seg­ir að Fjár­mála­eft­ir­litið hafi ekki fengið neina til­kynn­ingu frá spari­sjóðnum um skuld­bind­ing­una.

Braut­ar­holt 20 var stærsta áhættu­skuld­bind­ing spari­sjóðsins á ár­un­um 2006-2008, en fé­lagið var í eigu stjórn­ar­for­manns fé­lags­ins og fram­kvæmda­stjóra þess. Þá áttu þeir báðir hluti í fé­lög­un­um Skjólvangi ehf. og Streng Bygg­ing­um ehf. en fram­kvæmda­stjór­inn átti til viðbót­ar hluti í Par­keti ehf., Málm­steypu Ámunda Sig­urðs ehf., Tjarn­ar­völl­um 5 ehf. og Árbakka ehf. Fé­lög­in Arn­arsmári ehf. og Fast­eigna­sölu­sér­leyfi ehf. (Remax) voru í eigu stjórn­ar­for­manns­ins og viðskipta­fé­laga hans.

Varð gjaldþrota árið 2011

Lán hóps­ins voru flest í er­lendri mynt og eft­ir hrun banka­kerf­is­ins hækkuðu þau mjög mikið. Veð að baki lán­un­um, sem voru að miklu leyti í fast­eign­um, lóðum og hluta­bréf­um, höfðu lækkað í verði og hluta­bréf­in mörg hver orðin einskis virði. Fé­lagið var úr­sk­urðað gjaldþrota í nóv­em­ber 2011, en Drómi hf (slita­stjórn Spari­sjóðsins og Frjálsa fjár­fest­inga­bank­ans) leysti þá til sín nokkr­ar eign­ir fé­lags­ins og lýsti kröfu í búið upp á 3,3 millj­arða.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka