Í árslok 2008 nam heildarskuldbinding Brautarholts 20 ehf. og tengdra aðila við Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis tæpum 5,4 milljörðum króna og var áhættuskuldbindingin 29,4% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins, að frádregnu sérstöku afskriftaframlagi og vaxtafrystingu. Þrátt fyrir það má áhætta vegna tengdra viðskiptamanna ekki fara yfir 25% af eiginfjárgrunni samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki. Þetta kemur fram í rannsóknarskýrslu um sparisjóðina sem kynnt var í dag.
Fari áhættuskuldbinding yfir 25% mörkin skal það tilkynnt Fjármálaeftirlitinu án tafar, en í rannsóknarskýrslunni segir að Fjármálaeftirlitið hafi ekki fengið neina tilkynningu frá sparisjóðnum um skuldbindinguna.
Brautarholt 20 var stærsta áhættuskuldbinding sparisjóðsins á árunum 2006-2008, en félagið var í eigu stjórnarformanns félagsins og framkvæmdastjóra þess. Þá áttu þeir báðir hluti í félögunum Skjólvangi ehf. og Streng Byggingum ehf. en framkvæmdastjórinn átti til viðbótar hluti í Parketi ehf., Málmsteypu Ámunda Sigurðs ehf., Tjarnarvöllum 5 ehf. og Árbakka ehf. Félögin Arnarsmári ehf. og Fasteignasölusérleyfi ehf. (Remax) voru í eigu stjórnarformannsins og viðskiptafélaga hans.
Lán hópsins voru flest í erlendri mynt og eftir hrun bankakerfisins hækkuðu þau mjög mikið. Veð að baki lánunum, sem voru að miklu leyti í fasteignum, lóðum og hlutabréfum, höfðu lækkað í verði og hlutabréfin mörg hver orðin einskis virði. Félagið var úrskurðað gjaldþrota í nóvember 2011, en Drómi hf (slitastjórn Sparisjóðsins og Frjálsa fjárfestingabankans) leysti þá til sín nokkrar eignir félagsins og lýsti kröfu í búið upp á 3,3 milljarða.