Ísland er eina landið þar sem frumkvöðlastarfsemi hefur ekki batnað á árunum 2006 og 2013. Þetta kemur fram í skýrslu Evrópusambandsins um frumkvöðlastarfsemi í Evrópu fyrir árið 2014. Petri Rouvinen, rannsóknarstjóri hjá Rannsóknarstofnun um finnskan efnahag, sagði frá þessu á Nýsköpunarþingi í dag, en hann bar saman stöðu nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi og Finnlandi.
Í skýrslunni er Ísland flokkað sem fylgjandi í nýsköpun en Finnland sem leiðtogi. Rouvinen segir aftur á móti að þrátt fyrir þennan stigsmun, þá sé mjög stutt á milli landanna, því Finnland sé neðarlega í sínum flokki meðan Ísland sé ofarlega í sínum. Benti hann á að af þeim átta greiningarflokkum sem árangur er mældur í kemur Finnland betur út á fjórum sviðum en Ísland er betur statt á fjórum.
Stærsti munurinn á milli landanna er á sviði hugverka og mannauðs, en Rouvinen sagði að í Finnlandi hefði mikið verið sett í skráningu einkaleyfa og þá væri mun meira um starfsfólk í nýsköpunargreinum þar í landi en á Íslandi.Ísland stendur sig aftur á móti aðeins betur í að byggja upp tengslanet, fjárhagsstuðning við sprotafyrirtæki á fyrstu stigum og alþjóðlegum tengslum í rannsóknar- og nýsköpunarvinnu.
Ísland lendir í skýrslunni fremst meðal þróaðra landa þegar kemur að aðstoð við fyrirtæki á fyrstu skrefum uppbyggingar. Er árangur Íslands um tvöfalt betri en árangur Finnlands. Rouvinen segir þetta áhugaverða staðreynd, en furðar sig á því að þetta skili sér ekki betur þegar kemur að aukinni uppbyggingu seinna meir. Hann benti á að hér á landi væri 90% af nýjum fyrirtækjum fjármögnuð af fjölskyldum eða með bankalánum, en ekki með fjárfestum. Hann sagði þetta ekki uppfylla þarfir vaxandi fyrirtækja og að í Finnlandi væri aðkoma slíkra fjárfesta mun meiri.
Fjárfesting fyrirtækja í alþjóðlegri uppbyggingu er talinn í tugum milljóna evra að sögn Rouvinen og því er nauðsynlegt að hafa breiðan vettvang til að sækja fjárfestingu. Sagði hann að fjárfestar þyrftu þó einnig að geta séð útgönguleið úr fjárfestingunni seinna meir og þar skori Ísland ekki hátt með núverandi höft.