Sparisjóðirnir töpuðu milljörðum á lánum sem veitt voru vegna kaupa á Icebank, en lánin voru aðallega með veð í sömu bréfum, eða hlutabréfum í einkahlutafélögum sem tóku lánin. Þetta kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar um sparisjóðina sem var kynnt í dag.
Seljendur bréfanna voru Byr sparisjóður, Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis og sparisjóðir tengdir þeim, þ.e. nb.is-sparisjóður hf., Sparisjóður Norðlendinga og Sparisjóður Kópavogs, en kaupendur voru voru fimm sparisjóðir og fjórtán einkahlutafélög, þar af sex félög í eigu stjórnenda bankans.
Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis, Byr sparisjóður, Sparisjóðurinn í Keflavík, Sparisjóður Mýrasýslu og Sparisjóðabankinn lánuðu kaupendum fyrir hlutunum. Í skýrslunni segir að veð fyrir lánunum hafi nær eingöngu verið í bréfum Icebank hf., hlutabréfum í einkahlutafélögunum sem fengu lán til kaupanna og reikningum þar sem greiðslur af hlutabréfunum áttu að leggjast inn. Þessi lán töpuðust öll en upphafleg lánsfjárhæð þeirra var 8,4 milljarðar króna.