Í morgun voru hlutabréf Sjóvár tekin til viðskipta í Kauphöll Íslands, en í vikunni fór fram útboð þar sem bréf í félaginu voru seld fyrir 4,7 milljarða, en heildareftirspurn var 35,7 milljarðar. Verð bréfanna hefur hækkað mikið það sem af er degi, en gengið er núna 13,65 krónur á hlut, en var 11,9 í tilboðshluta A og 13,51 í tilboðshluta B. Hækkunin er því tæplega 15% frá því að viðskipti hófust fyrir þá sem voru með í tilboðshluta A.
„Við höfðum það að markmiði frá byrjun að tryggja mjög dreifða eignaraðild á meðal almennings,“ sagði Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár, í tilkynningu til Kauphallarinnar. „Við erum því afskaplega ánægð með þann áhuga sem fjárfestar hafa sýnt félaginu og bjóðum alla nýja hluthafa velkomna. Við höfum unnið af kostgæfni við að styrkja bæði fjárhagslegan grunn sem og innviði fyrirtækisins fyrir skráningu þess og trúum að við munum styrkjast enn frekar við skráningu á hlutabréfamarkaðinn.“
Páll Harðarson segir skráninguna gera félagið sýnilegra. „Við erum stolt af því að bjóða Sjóvá í Kauphöllina, fyrsta félagið sem skráð er á Aðalmarkaðinn í ár,“ sagði Páll. „Félagið er vel þekkt á meðal landsmanna sem eitt af stærstu tryggingarfélögum landsins. Skráning mun gera félagið sýnilegra og við hlökkum til að styðja við Sjóvá á vegferð þess sem skráð fyrirtæki.“
Íslandsbanki var umsjónaraðili með skráningunni. Íslandsbanki ásamt Landsbanka sér um viðskiptavakt með bréf félagsins.