Fríverslunarviðræður við Brasilíu í sjónmáli

mbl.is

Reiknað er með að viðræður um fríverslun á milli Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) og Mercosur, efnahagsbandalags fimm Suður-Ameríkuríkja: Brasilíu, Argentínu, Venesúela, Úrúgvæ og Paragvæ, hefjist innan skamms. Þetta kemur fram á fréttavefnum Tax-news.com. Fyrir er EFTA, sem Ísland, Noregur, Sviss og Liechtenstein eiga aðild að, með fríverslunarsamninga við Chile, Kólumbíu, Perú, Kostaríka og Panama.

Fram kemur í fréttinni að utanríkisráðherra Brasilíu, Luiz Alberto Figueiredo, hafi opnað á málið í heimsókn Johanns Schneider-Ammann, fulltrúa í sambandsráði Sviss, til Brasilíu á dögunum og að ríkisstjórn hans styddi að viðræður færu af stað. Haft er eftir Schneider-Ammann að hann búist við að viðræður hefjist á næstu mánuðum.

Ennfremur segir í fréttinni að Brasilía sé stærsta viðskiptaland Sviss í Suður-Ameríku en hins vegar séu engir samningar á milli landanna um fjárfestingar og skattamál. Fríverslunarviðræður á milli EFTA og Mercosur hafi lengið niðri í næstum 14 ár. Breytt afstaða Brasilíu til málsins er talin tengjast fríverslunarviðræðum landsins við Evrópusambandið sem gert sé ráð fyrir að ljúki innan skamms. Þær viðræður hófust á ný árið 2010 eftir að hafa áður legið niðri í um áratug.

Þá segir að fríverslunarviðræður á milli EFTA og Mercosur verði ekki auðveldar enda sé öflug hagsmunagæsla á báða bóga. Sviss vilji til að mynda fá aðgang fyrir iðnaðarframleiðslu sína á sama tíma og Brasilía vilji lægri tolla á landbúnaðarafurðir sínar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka