Fyrirtækið Creditinfo, sem starfar í miðlun fjárhags- og viðskiptaupplýsinga, skoðar nú að flytja höfuðstöðvar sínar úr landi. Reynir Grétarsson, stjórnarformaður og stærsti eigandi félagsins staðfestir þetta í samtali við mbl.is. Segir hann að ef af verði gæti flutningurinn átt sér stað strax á þessu ári.
Kjarninn sagði fyrst frá málinu, en þar er meðal annars sagt frá því að Reynir hafi sent forsvarsmönnum ríkisstjórnarinnar tölvupóst í kjölfar þingsályktunartilögu um að slíta aðildarviðræðum við Evrópusambandið og draga umsókn Íslands til baka. Segir Kjarninn að fleiri fyrirtæki séu undir þrýstingi frá erlendum eigendum að flytja höfuðstöðvar í burtu, meðal annars Marel, CCP og Össur.
Hjá Creditinfo starfa sextíu manns á Íslandi, en í heild starfa um 300 manns í sautján löndum hjá fyrirtækinu.