Tap Marels á fyrsta fjórðungi ársins nam 1,9 milljónum evra, jafnvirði um 296 milljóna króna, samanborið við 5,7 milljóna evra, eða 889 milljóna króna, hagnað á fyrsta ársfjórðungi 2013.
Tekjur félagsins á fjórðunginum námu 154,8 milljóum evra og drógust þær saman milli ára, en á sama tímabili í fyrra námu þær 158 milljónum evra. Þá var EBITDA félagsins 8,1 milljón evra, sem er 5,2% af tekjum, en EBITDA var 16,9 milljónir evra á fyrsta ársfjórðungi 2013.
Í tilkynningu frá félaginu segir að sala á stöðluðum lausnum og tækjum hafi aukist á milli ára á meðan markaður fyrir stærri verkefni hafi enn ekki tekið við sér. „Rekstrarhagnaður á starfsemi Marel í kjúklingaiðnaði var lægri en venjulega á fyrsta ársfjórðungi sem rekja má til óhagræðis í framleiðslu og verkefna sem voru tekin við erfiðar markaðsaðstæður á síðasta ári. Búast má við að kjúklingaiðnaðurinn muni skila bættri arðsemi í öðrum ársfjórðungi byggt á stöðu pantanabókar,“ segir í tilkynningunni.
Þá var áætlun um skýrari rekstraráherslur (e. simpler, smarter and faster) hleypt af stokkunum í upphafi árs og gengur samkvæmt áætlun, að því er fram kemur í tilkynningunni. Markmiðið er að mæta þörfum viðskiptavina með skilvirkari hætti og draga úr árlegum kostnaði um 20-25 milljónir evra. Nú þegar á fyrsta ársfjórðungi hefur tekist að minnka árlegan kostnað um 3,6 milljónir evra.
Árni Oddur Þórðarson, forstjóri, Marels, segir að tekjur félagsins á fyrsta ársfjórðungi hafi numið 155 milljónum evra og leiðréttur rekstrarhagnaður 4,6 milljónum evra sem sé ekki í samræmi við getu félagsins.
„Við tökum ákveðin skref í þá átt að samþætta einingar og hámarka framleiðslukerfið með það að leiðarljósi að gera fyrirtækið skilvirkara. Stefna Marel er skýr og markaðsstaðan sterk en við þurfum að aðlaga reksturinn betur að stefnu félagsins til að ná arðsemi í samræmi við samkeppnisstöðu.
Í kjúklingaiðnaði kynnti Marel til leiks tvær vel heppnaðar lausnir, Robobatcher og SensorX SmartSort. Á sama tíma erum við spennt fyrir FleXicut sem búast má við að valdi straumhvörfum í hvítfiskvinnslu.
Eins og við sögðum í upphafi árs teljum við að rekstrarhagnaður muni aukast þegar líður á árið. Til skemmri tíma litið eru miklir möguleikar fyrir Marel í Bandaríkjunum og í S-Ameríku þar sem þörf framleiðenda er að aukast eftir endurnýjun og stækkun. Marel er í góðri stöðu til að grípa þau tækifæri.
Í Evrópu eru markaðsaðstæður hinsvegar litaðar af vaxandi spennu í Úkraínu. Á nýmörkuðum byrjar árið með miklum sveiflum á fjármálamörkuðum en langtímahorfur fyrir okkar iðnað eru góðar,“ er haft eftir honum í tilkynningu.
Þar segir einnig að pantanabók félagsins hafi staðið í 138,4 milljónum evra í lok fyrsta ársfjórðungs 2014 samanborið við 132,4 milljónir evra í upphafi ársins. Nýjar pantanir námu 160,8 milljónum evra á fyrsta ársfjórðungi 2014 samanborið við 162,4 milljónir á fjórða ársfjórðungi 2013. Stórar pantanir eru enn með lægra móti á meðan sala á stöðluðum lausnum jókst milli ára.
„Búist er við að rekstrarhagnaður aukist þegar líður á árið. Marel gerir ráð fyrir að ná 55 milljóna leiðréttum rekstrarhagnaði (e. adjusted EBIT) á árinu 2014 með innri vexti. Kostnaður vegna endurskipulagningar er áætlaður í kringum 20-25 milljónir yfir tímabilið 2014-2015 með það að markmiði að ná rekstrarhagnaði félagsins yfir 100 milljónir árið 2017,“ segir jafnframt í tilkynningunni.