Meðal þess sem kynnt var á Eve fanfest í Hörpunni í dag voru tækninýjungar á sviði þrívíddargleraugna fyrir tölvuleiki frá bæði Sony og Occulus rift. CCP, framleiðendur Eve tölvuleiksins, hafa síðustu misseri verið í samstarfi við bæði þessi fyrirtæki varðandi þróun á nýju viðmóti fyrir leikinn Valkyrie, sem CCP er með í þróun. Almenningi gafst kostur á að prófa Occulus Rift búnaðinn, en blaðamenn fengu einnig að skoða og prófa Sony Morpheus, sem einungis hefur verið til sýningar á örfáum tæknisýningum síðustu vikurnar.
Þrátt fyrir að blaðamaður hafi undanfarin ár minnkað tölvuleikjanotkun töluvert og teljist vart tölvuleikjaspilari í dag, þá var töluverð spenna í loftinu yfir að fá að prófa Morpheus búnaðinn. Í sem styðstu máli var upplifunin einstaklega skemmtileg og áhugaverð og líklega verður þessi tækni það sem koma skal í kvikmyndum, tölvuleikjum og t.d. tónleikaupptökum.
Spilarinn fær þrívíddargleraugu sem fest eru um höfuð hans og þegar hann hreyfir hausinn fram og til baka breytist sýn hans innan leiksins. Þannig eru höfuðhreyfingar notaðar í ýmsa þætti, til dæmis til að festa mið á sprengjum og annað slíkt. Undirritaður viðurkennir fúslega að hafa orðið sjálfum sér til skammar með lélegri spilamennsku, en það mun taka einhvern tíma að ná fullkominni stjórn á svona tækni. Aftur á móti var upplifunin einstaklega skemmtileg og ljóst að tæknin býður upp á mjög fjölbreytta hluti í framtíðinni.
Það kom reyndar blaðamanni nokkuð á óvart að grafíkin væri ekki betri í þrívíddarumhverfinu, en sú uppfærsla sem var til reynslu í Hörpunni er ekki sú nýjasta og væntanlega mun hún batna þegar fram líða stundir.
Enn er ekki ljóst hvenær báðar þessar tæknilausnir verða settar á markað, en vonir margra standa til að það verði jafnvel seint á þessu ári. Occulus rift er hönnuð fyrir PC umhverfi á meðan Sony Morpheus er hannað fyrir Playstation 4 tölvur.