Stjórnvöld í Kýpur stigu í gær stórt skref í þá átt að afnema fjármagnshöftin sem hafa verið við lýði í landinu í rúmt ár. Nú er Kýpverjum heimilt að innleysa ávísanir án takmarkana.
Hins vegar eru enn allar takmarkanir sem varða viðskipti í útlöndum í gildi á þá má enn fremur ekki opna nýjan bankareikning í landinu vegna viðskipta innanlands.
Í frétt AFP segir að fram til gærdagsins, 2. maí, hafi einstaklingum verið óheimilt að innleysa ávísanir sem námu hærri upphæðum en 50 þúsund evrum og fyrirtækjum ávísunum að upphæð 200 þúsundum evra.
Nú hefur þeim takmörkunum verið aflétt.
Kýpur er eina landið á evrusvæðinu sem býr við fjármagnshöft, en unnið hefur verið að því að afnema þau síðustu mánuði.
Í marsmánuði á þessu ári afnam Haris Georgiades, fjármálaráðherra Kýpurs, bann við því að taka meira en 300 evrur á dag af kýpverskum bankareikningi. Hins vegar er Kýpverjum enn bannað að hafa með sér meira en þrjú þúsund evrur þegar þeir ferðast til annarra landa, að því er segir í fréttinni.
Stjórnvöld segja að nú geti þau loks stigið þessi skref, og farið að afnema höftin, vegna þess að þau hafi staðist þrjú álagspróf á vegum Evrópusambandsins, Evrópska seðlabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þá hafi þessir aðilar jafnframt veitt stjórnvöldum í Kýpur neyðarlán á sínum tíma til að endurskipuleggja kýpverska bankakerfið.
Fjórða prófið mun fara fram í næstu viku.
Stjórnvöld í Kýpur telja að þau geti afnumið allar takmarkanir á gjaldeyrisviðskiptum fyrir lok þessa árs ef þeim takist að endurheimta traust alþjóðlegra fjárfesta.